8-liða úrslit Mjólkurbikarsins fara fram í kvöld og á morgun. Leikirnir verða að sjálfsögðu allir í beinum textalýsingum hjá okkur en tveir af þeim fara fram á Akureyri.
mánudagur 5. júní
17:30 Þór - Víkingur R. (Þórsvöllur)
Þórsarar hafa verið ansi misjafnir í leikjum sínum í Lengjudeildinni og skipst á að vinna og tapa. Þeir njóta þess að vera á heimavelli en þar hafa þeir unnið alla þrjá deildarleiki sína á tímabilinu og lögðu Leikni í síðustu umferð bikarsins.
Spá Fótbolta.net: Víkingur er á toppi Bestu deildarinnar og elskar bikarinn, liðið hefur verið handhafi bikarmeistaratitilsins síðan 2019 og mun klára verkefni sitt á Akureyri.
20:00 Breiðablik - FH (Kópavogsvöllur)
Bæði lið hafa sigrað Lengjudeildarlið á leið sinni í 8-liða úrslitin. Blikar ætla sér báða titla en félagið hefur aðeins einu sinni unnið bikarmeistaratitilinn og það var 2009.
Spá Fótbolta.net: Fyrst FH fékk útileik gegn Breiðabliki er erfitt að sjá liðið eiga möguleika. Slakt gengi FH á gervigrasvöllum er mikið í umræðunni en liðið hefur ekki unnið gervigrasleik í deildinni síðan 2021. Breiðablik klárar þetta nokkuð örugglega.
þriðjudagur 5. júní
17:30 KA-Grindavík (Greifavöllurinn)
KA hefur ekki verið sannfærandi í Bestu deildinni og þrívegis tapað 4-0 á innan við mánuði. Það má búast við hörkuleik gegn vel mönnuðu liði Grindavíkur sem er líklegt til afreka í Lengjudeildinni og vann Val í 16-liða úrslitum. Þrátt fyrir að hafa fengið rautt í síðasta deildarleik mun Guðjón Pétur Lýðsson geta spilað þennan leik þar sem spjöld í deild og bikar eru aðskilin.
Spá Fótbolta.net: KA nær að klára þetta í framlengingu.
20:00 KR-Stjarnan (Meistaravellir)
Liðin mættust nýlega á þessum velli í deildinni, við erfiðar aðstæður. Eina mark leiksins kom úr föstu leikatriði og ekki ólíklegt að það sama endurtaki sig núna. Eftir mjög erfiða byrjun eru stigin farin að detta inn hjá KR í deildinni.
Spá Fótbolta.net: KR vinnur aftur 1-0.
Athugasemdir