Guimaraes, Isak, Kimmich, Diaz, Branthwaite, Mainoo og fleiri góðir í slúðri dagsins
   sun 05. júlí 2020 17:56
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Pepsi Max-deildin: Tvö víti í uppbótartíma hjá KA og Blikum
Thomas Mikkelsen jafnaði fyrir Blika úr vítaspyrnu.
Thomas Mikkelsen jafnaði fyrir Blika úr vítaspyrnu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hrannar varð fyrir miklu óláni.
Hrannar varð fyrir miklu óláni.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
KA 2 - 2 Breiðablik
0-1 Thomas Mikkelsen ('44 )
1-1 Brynjar Ingi Bjarnason ('66 )
2-1 Guðmundur Steinn Hafsteinsson ('90 , víti)
2-2 Thomas Mikkelsen ('92 , víti)
Lestu nánar um leikinn

Breiðablik tapaði sínum fyrstu stigum í Pepsi Max-deildinni 2020 þegar liðið heimsótti KA á slökum Greifavelli á Akureyri. Lokamínúturnar í leiknum voru ótrúlegar.

Leikurinn var ekki sá skemmtilegasti til að byrja með, en gestirnir úr Kópavogi komust yfir þegar Thomas Mikkelsen skoraði eftir klafst í teignum.

Gestirnir fóru með 1-0 forystu inn í hálfleikinn og eftir tíu mínútur í seinni hálfleik skrifaði Ester Ósk Árnadóttir í textalýsingu frá leiknum: „Það er eiginlega bara tímaspursmál hvenær Breiðablik setur mark númer tvö. Höskuldur kemur á mikilli ferð og nær skotinu en Qvist bjargar."

Rúmum tíu mínútum eftir það jafnaði KA hins vegar þegar varnarmaðurinn Brynjar Ingi Bjarnason skoraði eftir hornspyrnu frá Hallgrími Mar Steingrímssyni.

Þegar komið var fram í uppbótartíma dró svo til tíðinda. Jóhann Ingi Jónsson dæmdi vítaspyrnu fyrir KA eftir að hann mat það þannig að Róbert Orri Þorkelsson hefði brotið af sér í teignum. Guðmundur Steinn Hafsteinsson skoraði af miklu öryggi og virtist vera að tryggja KA sigur.

Blikar hins vegar tóku miðju og svona fimm sekúndum síðar fengu þeir vítaspyrnu. Hrannar Björn Steingrímsson rann á ömurlegum vellinum og fékk boltann í höndina. Gríðarlega svekkjandi fyrir hann. Mikkelsen fór á punktinn og skoraði.

Ekki urðu mörkin fleiri. Breiðablik er með tíu stig á toppi deildarinnar eftir fjóra leiki. KA er í tíunda sæti með tvö stig eftir þrjá leiki.

Stjarnan er núna eina liðið sem hefur ekki tapað. Leikmenn Stjörnunnar hafa hins vegar verið í sóttkví og ekki spilað í síðustu tveimur umferðum vegna þess. Stjarnan hefur unnið báða leiki sína til þessa.

Önnur úrslit í umferðinni:
Valur 1 - 4 ÍA
Grótta 4 - 4 HK
Fjölnir 1 - 2 Fylkir
KR 2 - 0 Víkingur R.
Athugasemdir
banner
banner
banner