
Thibaut Courtois, markvörður belgíska landsliðsins, segir frammistöðu liðsins á HM til skammar og að þetta sé alls ekki þessi gullkynslóð sem talað er um.
Belgía datt úr leik eftir riðlakeppni HM. Spilamennska liðsins var langt frá því að vera sannfærandi, að minnsta kosti miðað við mannskapinn.
Marokko kom sér í 16-liða úrslitin á kostnað Belgíu en Courtois vonast til þess að hlutirnir verði betri í framtíðinni.
„Við vorum skugginn af sjálfum okkur á þessu móti og á Evrópumótinu. Þetta var svolítið vandræðalegt. Við munum sjá hvað gerist, hverjir verða áfram og hverjir hætta. Þetta gerist hratt og í mars byrja leikirnir í undankeppni Evrópumótsins.“
„Það er erfitt að kalla þetta gullkynslóð þegar þú vinnur ekkert. Við erum ekki gullkynslóðin, heldur erum við kynslóð sem hefur mikla hæfileika og magnaða leikmenn alls staðar frá Evrópu. Við sýndum að við vorum Belgía á HM í Rússlandi fyrir fjórum árum og spiluðum góðan fótbolta.“
Courtois er ekki að íhuga að leggja landsliðshanskanna á hilluna og er markmiðið að spila á HM í Bandaríkjunum, Kanada og Mexíkó eftir fjögur ár.
„Já, það er markmiðið. Við erum enn með góða kynslóð og það munu fleiri leikmenn bætast við. Ég vona að það verða góðir tímar þegar ég ákveð að hætta í landsliðinu en sú stund er ekki runnin upp,“ sagði hann í lokin.
Athugasemdir