Zidane hefur augastað á Man Utd - Guimaraes áfram hjá Newcastle - Bayern hefur ekki rætt við Rangnick
   lau 06. febrúar 2021 23:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Thiago í vonbrigðaliði - „Eins og að horfa á mann glíma við tré"
Thiago Alcantara.
Thiago Alcantara.
Mynd: Getty Images
Í seinni hluta útvarpsþáttarins Fótbolta.net í dag var farið yfir enska boltann.

Kristján Atli Ragnarsson, stuðningsmaður Liverpool, mætti í hljóðver. Hann setti meðal annars saman vonbrigðalið annars fjórðungs tímabilsins. Í liðið valdi hann Thiago, miðjumann Liverpool.

„Honum er vorkunn, þú kemur til Englands og átt að drottna yfir þessari deild. Umræðan er þannig og aldur og fyrri störf eru þannig. Þú átt að koma og vera of góður fyrir þessa deild nánast. Þú byrjar á að fá Covid og svo ertu sendur beint á Goodison Park (heimavöll Everton) sem var ekki góð ákvörðun," sagði Kristján Atli.

„Svo þegar þú loksins byrjar að spila fótbolta þá er liðið lent í einhverju 'death spiral from hell'," sagði Kristján en mikil meiðsli hafa verið hjá liðinu og gengið ekki rosalega gott að undanförnu.

„Það eru allir að horfa á þig. Þú kemur inn og ert búinn að spila fótbolta í núna tæpa tvo mánuði, og þetta er eins og að horfa á mann glíma við tré. Hann er að rembast og rembast, það er ekkert að fúnkera í kringum hann en hann er ekki að gera neitt. Hann er ekki búinn að eiga lykilsendingu, stoðsendingu, ekki búinn að eiga góða hornspyrnu."

„Ef þú hefðir aldrei séð Thiago Alcantara spila fótbolta en værir búinn að horfa á hvern einasta leik hjá honum frá því hann kom til baka úr meiðslum í desember, þá værir þú að halda nornabrennur til höfuðs Jurgen Klopp fyrir að velja hann í liðið. Hann er bara þar."

„Við þurfum að fá Henderson framar svo hann geti sett Thiago á bekkinn. Hann er geggjaður leikmaður og verður geggjaður, bara ekki núna."

Kristján talaði um það að Thiago hefði þurft að spila aftar en vonast var eftir þegar hann var fenginn síðasta sumar vegna meiðsla lykilmanna. „Ég vona að ég komi hérna í næsta fjórðungi og hann verði besti leikmaður deildarinnar, og ég býst alveg eins við því."

Vonbrigðaliðið:
Aaron Ramsdale (Sheffield United)
Semi Ajayi (West Brom)
Jan Bednarek (Southampton)
Jamal Lewis (Newcastle)
Nelson Semedo (Wolves)
Ruben Loftus-Cheek (Fulham)
Thiago (Liverpool)
Kai Havertz (Chelsea)
Timo Werner (Chelsea)
Adama Traore (Wolves)
Gareth Bale (Tottenham)

Hlusta má á umræðuna í heild sinni hér að neðan.
Enska hringborðið - Annað fjórðungsuppgjör
Athugasemdir
banner
banner
banner