Rúben Amorim þjálfari Manchester United svaraði spurningum eftir 1-1 jafntefli á útivelli gegn Real Sociedad í 16-liða úrslitum Evrópudeildarinnar.
Joshua Zirkzee tók forystuna fyrir Man Utd í seinni hálfleik en Sociedad tók stjórnina á leiknum eftir það og jafnaði með marki úr vítaspyrnu eftir að Bruno Fernandes fékk bolta í hönd eftir hornspyrnu.
Orri Steinn Óskarsson kom inn af bekknum og komst næst því að gera sigurmark fyrir Sociedad en tókst ekki.
„Þetta hefði getað verið betra en þetta hefði líka getað verið verra. Strákarnir eru að gera sitt besta en það eru margir að spila úr stöðu sem er erfitt. Við vorum góðir stærsta hluta leiksins, mér fannst við stjórna þessu allt þar til þeir fengu vítaspyrnuna," sagði Amorim.
„Vítaspyrnan breytti leiknum, strákarnir voru orðnir virkilega þreyttir en við töpuðum ekki og núna þurfum við að spila góðan leik á heimavelli. Það verður mikil pressa á okkur á Old Trafford. Strákarnir eru orðnir þreyttir eftir mikið leikjaálag, það verður erfitt að spila aftur á sunnudaginn. Við þurfum að lifa þann leik af og mæta klárir í slaginn aftur á fimmtudaginn."
Man Utd tekur á móti Arsenal á sunnudaginn og spilar svo aftur við Sociedad næsta fimmtudag.
Athugasemdir