Frankfurt sigraði í Amsterdam - Bodö/Glimt skoraði þrjú
Fjórum seinni leikjum kvöldsins er lokið í 16-liða úrslitum Evrópudeildarinnar og litu áhugaverð úrslit dagsins ljós.
Það var mikil dramatík hjá AS Roma og Athletic Bilbao þar sem heimamenn gerðu sigurmark seint í uppbótartíma.
Inaki Williams tók forystuna fyrir gestina frá Bilbao með skalla eftir hornspyrnu á 50. mínútu en bakvörðurinn sókndjarfi Angelino jafnaði skömmu síðar eftir þunga sókn Rómverja.
Athletic var hættulegra liðið í seinni hálfleik en Spánverjunum tókst ekki að gera sigurmark á Ólympíuleikvanginum. Þess í stað slapp Eldor Shomurodov í gegn á lokasekúndum uppbótartímans og tryggði Rómverjum dýrmætan sigur. Lokatölur 2-1.
Ajax tapaði á sama tíma heimaleik gegn Eintracht Frankfurt, eftir að hafa tekið forystuna snemma leiks. Brian Brobbey skoraði eftir sendingu frá Jordan Henderson en Mario Götze lagði upp jöfnunarmarkið fyrir Hugo Larsson.
Staðan var því jöfn í leikhlé en gestirnir frá Frankfurt höfðu verið sterkari aðilinn. Leikurinn róaðist talsvert niður í síðari hálfleik en Frankfurt tókst að gera sigurmarkið með einu marktilraun sinni sem hæfði rammann eftir leikhléð. Ellyes Skhiri var þar á ferðinni og urðu lokatölur 1-2 í Amsterdam.
Bodö/Glimt gerði sér þá lítið fyrir og rúllaði yfir gríska stórveldið Olympiakos, sem vann Sambandsdeildina í fyrra. Bodö/Glimt vann 3-0 þar sem danski framherjinn Kasper Hogh skoraði tvennu eftir sjálfsmark í fyrri hálfleik.
Olympiakos fékk mikið af færum í Noregi en tókst ekki að skora framhjá rússneska markverðinum Nikita Haikin sem átti stórleik.
Lazio vann að lokum ótrúlegan sigur á útivelli gegn Viktoria Plzen. Liðin mættust í Tékklandi og var Lazio sterkara liðið í fyrri hálfleik.
Alessio Romagnoli skoraði á 18. mínútu eftir að heimamenn höfðu komið boltanum í netið en ekki dæmt mark vegna rangstöðu. Lazio var sterkari aðilinn í bragðdaufum fyrri hálfleik og snerist það við í síðari hálfleik.
Heimamenn í liði Plzen voru sterkari en sköpuðu sér ekki mörg færi. Þeir voru fljótir að jafna leikinn og tókst ekki að gera annað mark þrátt fyrir að vera fyrst einum leikmanni fleiri og svo tveimur.
Nicoló Rovella fékk rautt spjald á 77. mínútu og Samuel Gigot á 93. mínútu en það var 8 mínútum bætt við venjulegan leiktíma. Plzen leitaði að sigurmarkinu en fann það ekki, þess í stað tókst níu leikmönnum Lazio að gera ótrúlegt sigurmark á 98. mínútu.
Mateo Guendouzi átti þar stoðsendingu á Gustav Isaksen sem skoraði.
Roma 2 - 1 Athletic
0-1 Inaki Williams ('50 )
1-1 Angelino ('56 )
2-1 Eldor Shomurodov ('94)
Bodo-Glimt 3 - 0 Olympiakos
1-0 Konstantinos Tzolakis ('13 , sjálfsmark)
2-0 Kasper Hogh ('45 )
3-0 Kasper Hogh ('55 )
Ajax 1 - 2 Eintracht Frankfurt
1-0 Brian Brobbey ('10 )
1-1 Hugo Larsson ('28 )
1-2 Ellyes Skhiri ('70 )
Plzen 1 - 2 Lazio
0-1 Alessio Romagnoli ('18 )
1-1 Rafiu Durosinmi ('53 )
1-2 Gustav Isaksen ('98)
Rautt spjald: Nicolo Rovella, Lazio ('77)
Rautt spjald: Samuel Gigot, Lazio ('93)
Athugasemdir