Brasilíski táningurinn Estevao gengur til liðs við Chelsea í sumar en hann hefur verið að standa sig gífurlega vel frá því að enska stórveldið náði samkomulagi við Palmeiras um kaup á honum.
Chelsea borgaði um 30 milljónir punda til að kaupa Estevao í júní í fyrra þegar hann var nýbúinn að eiga 17 ára afmæli. Síðan þá hefur hann hækkað gríðarlega mikið í verði og er metinn á rúmlega 50 milljónir punda í dag hjá CIES Football Observatory.
Estevao hefur verið funheitur með Palmeiras og er kominn með 5 mörk í 11 leikjum á tímabilinu, eftir að hafa komið að 31 marki í 50 leikjum á síðustu leiktíð.
Það er aðeins einn leikmaður í fótboltaheiminum sem hefur hækkað hraðar í verði á sama tíma, Samu Agehowa framherji Porto sem var áður þekktur undir nafninu Samu Omorodion.
Chelsea reyndi að kaupa Agehowa frá Atlético Madrid en hann kaus Porto og er búinn að skora 20 mörk í 32 leikjum, auk þess að gefa þrjár stoðsendingar.
Annar leikmaður sem hefur hækkað mikið í verði á sama tíma er Ben Doak, kantmaður Liverpool sem er að gera flotta hluti á láni hjá Middlesbrough.
Athugasemdir