Tottenham átti afar slakan leik þegar liðið heimsótti AZ Alkmaar í 16-liða úrslitum Evrópudeildarinnar í dag og var Ange Postecoglou þjálfari skiljanlega ósáttur að leikslokum.
AZ vann 1-0 og þarf Tottenham því að sigra heimaleikinn með tveggja marka mun eða meira til að komast áfram án þess að þurfa framlengingu eða vítaspyrnukeppni.
„Þetta var augljóslega ekki gott kvöld fyrir okkur. Þessi úrslit eru vonbrigði en stærstu vonbrigðin eru frammistaðan. Við komumst aldrei inn í leikinn, við vorum í miklum erfiðleikum allan tímann en það er bara hálfleikur. Við erum ennþá með í þessu einvígi," sagði Postecoglou.
„Völlurinn var erfiður og við höndluðum það ekki vel. Þar fyrir utan vorum við ekki nægilega aggressívir, við pressuðum illa og gerðum ekkert með boltann. Við vorum alltof oft að senda boltann á milli án þess að ógna þeim á neinn hátt. Við vorum ekki nálægt því að vera eins góðir og við þurfum að vera. Það er margt sem við þurfum að laga fyrir seinni leikinn.
„Við höfum trú á sjálfum okkur á heimavelli. Við vitum hvaða gæðum við búum yfir og að við getum skorað mikið af mörkum."
Dominic Solanke fór meiddur af velli í tapinu og þá er Rodrigo Bentancur kominn í leikbann vegna uppsafnaðra spjalda. Postecoglou telur ekki að meiðsli Solanke séu alvarleg.
Athugasemdir