Kjartan Stefánsson, þjálfari Fylkis, var óánægður með hvað leikurinn gegn Stjörnunni hafi verið kaflaskiptur en liðið er enn án sigurs eftir fyrstu fimm leiki deildarinnar.
Lestu um leikinn: Fylkir 1 - 2 Stjarnan
Það var ekki hægt að kvarta yfir byrjuninni hjá Fylki. Liðið komst yfir á 15. mínútu en eftir að Stjarnan jafnaði á 38. mínútu þá gekk illa að halda skipulagi og bjóst Kjartan við því að mörkin myndu leka í gegn.
„Þetta var kaflaskipt fyrir okkur. Við vorum ansi fínar fram að marki en svo þegar við fáum á okkur mark þá var nú eiginlega nánast eins og við værum að bjóða þeim í partí. Ég hélt á köflum að við myndum fá á okkur tvö eða þrjú mörk," sagði Kjartan við Fótbolta.net.
„Leikplanið var að vera þéttar og fá ekki á sig mark og reyna að setja boltann skipulagðan upp völlinn."
Eins og hefur komið fram er Fylkir án sigurs en liðið hefur tapað þremur og gert jafntefli í tveimur leikjum.
„Það er að reyna að vinna næsta leik og taka einn leik í einu. Ég held að það sé planið."
„Það var ýmislegt ágætt í þessum leik en því miður alltof kaflaskiptur og það var kannski ástæðan fyrir að við töpuðum þessu," sagði hann í lokin.
Hægt er að sjá viðtalið í spilaranum hér að ofan.
Athugasemdir