Smith Rowe gæti yfirgefið Arsenal - Mörg lið á eftir Toney
   þri 06. júní 2023 21:22
Ívan Guðjón Baldursson
Besta deild kvenna: Þórdís Elva galdraði fram sigurmark
watermark
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
watermark
Mynd: FH
watermark
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
watermark
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Það fóru þrír leikir fram í Bestu deild kvenna í dag þar sem topplið Vals tók á móti Þór/KA í hörkuleik.


Valskonur voru með yfirhöndina en áttu í miklum erfiðleikum með að koma boltanum í netið, á meðan Akureyringar beittu hættulegum skyndisóknum og komust einnig nálægt því að skora.

Ásdís Karen Halldórsdóttir fékk dæmda vítaspyrnu undir lok fyrri hálfleiks en Melissa Anne Lowder gerði vel að verja frá henni.

Boltinn rataði loks í netið í síðari hálfleik eftir töfrabragð frá Þórdísi Elvu Ágústsdóttur, þar sem hún keyrði inn á völlinn frá hægri kanti og smellti honum stórglæsilega í netið þar sem Melissa átti ekki möguleika í markinu.

Sandra María Jessen, fyrirliði Þórs/KA, komst næst því að jafna leikinn með föstu skoti en það fór beint á Fanney Ingu Birkisdóttur í markinu. 

Lokatölur urðu 1-0 fyrir Val sem er með fjögurra stiga forystu á Breiðablik, en Kópavogskonur eiga leik til góða.

Lestu um leikinn

Valur 1 - 0 Þór/KA
0-0 Ásdís Karen Halldórsdóttir ('45, misnotað víti)
1-0 Þórdís Elva Ágústsdóttir ('54)

Nýliðar FH unnu þá mikilvægan slag í fallbaráttunni þegar Selfoss kíkti í heimsókn. Valgerður Ósk Valsdóttir kom FH yfir með skalla eftir hornspyrnu í fyrri hálfleik og leiddu Hafnfirðingar verðskuldað í leikhlé, 1-0.

Það var talsvert meira líf í Selfyssingum í síðari hálfleik en þeim tókst ekki að setja jöfnunarmark. Unnur Dóra Bergsdóttir komst næst því að skora þegar hún skaut í stöngina úr dauðafæri og þá var Barbára Sól Gísladóttir einnig nálægt því skömmu áður en FH-ingar gerðu út um viðureignina.

Sara Montoro skoraði beint í kjölfarið af klúðri Barbáru, Sara skoraði eftir flotta sókn FH og góðan undirbúning frá Mackenzie Marie George.

Selfossi tókst ekki að minnka muninn þrátt fyrir tilraunir á lokakaflanum og niðurstaðan 2-0 sigur FH, sem klifrar úr fallsæti og er með tíu stig eftir sjö umferðir.

Selfoss situr áfram á botninum með fjögur stig.

Lestu um leikinn

FH 2 - 0 Selfoss
1-0 Valgerður Ósk Valsdóttir ('25)
2-0 Sara Montoro ('81)

Að lokum vann Þróttur R. þægilegan sigur á Sauðárkróki þar sem Ólöf Sigríður Kristinsdóttir var atkvæðamest með tvennu.

Þróttur sýndi mikla yfirburði og komst í tveggja marka forystu á fyrstu tíu mínútunum þegar Ólöf Sigríður og Tanya Laryssa Boychuk skoruðu sitthvort markið eftir fyrirgjafir.

Varnarleikur Sauðkrækinga var ekki upp á marga fiska og Þróttarar óheppnir að bæta ekki þriðja markinu við fyrir leikhlé.

Ólöf Sigríður setti þriðja markið í síðari hálfleik, áður en Hannah Jane Cade klóraði í bakkann með marki úr vítaspyrnu á 76. mínútu.

Meira var ekki skorað og verðskuldaður sigur Þróttar staðreynd. Þróttur klifrar upp í annað sæti Bestu deildarinnar með sigrinum, þar sem liðið er þremur stigum eftir toppliði Vals. 

Tindastóll er í fallbaráttunni með átta stig eftir sjö umferðir.

Lestu um leikinn

Tindastóll 1 - 3 Þróttur R.
0-1 Ólöf Sigríður Kristinsdóttir ('4)
0-2 Tanya Laryssa Boychuk ('10)
0-3 Ólöf Sigríður Kristinsdóttir ('64)
1-3 Hannah Jane Cade ('76, víti)


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner