
Sandra María Jessen spilaði sinn fyrsta leik fyrir Köln sem tapaði fyrir Leipzig, 2-0, í Íslendingaslag í fyrstu umferð þýsku deildarinnar í dag.
Sandra gekk í raðir Köln frá Þór/KA undir lok síðasta mánaðar og kom beint inn í byrjunarliðið.
Köln missti austurrísku landsliðskonuna Celinu Degen af velli snemma í síðari hálfleik er hún fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt. Róðurinn þyngdist eftir það og fór það svo að Leipzig hafði sigur.
Emilía Kiær Ásgeirsdóttir byrjaði á bekknum hjá Leipzig, en kom við sögu þegar tæpur stundarfjórðungur var til leiksloka.
Amanda Andradóttir byrjaði hjá Twente sem vann 3-1 sigur á Heerenveen í 1. umferð hollensku deildarinnar.
Nú fer öll einbeiting á Meistaradeildina en þar mætir liðið GKS Katowice í tveggja leikja rimmu um sæti í deildarkeppnina. Amanda varð þrefaldur meistari með Twente á þessu ári og gat hún og liðið ekki beðið um betri byrjun í titilvörninni.
Marie Jóhannsdóttir kom inn af bekknum hjá Molde sem vann Viking, 4-1, í norsku B-deildinni. Molde er í öðru sæti með 34 stig, tveimur stigum frá toppliði Haugesund.
Sunneva Hrönn Sigurvinsdóttir byrjaði hjá FCK sem gerði 1-1 jafntefli við Thisted í dönsku B-deildinni. FCK er í öðru sæti með 8 stig eftir fjóra leiki.
Athugasemdir