
„Þetta var eins og tómatsósan kannski. Þeir voru þéttir og náðu að verjast ágætlega í fyrri hálfleiknum. Við hefðum getað verið að eins hraðari á boltanum þá fannst mér. Við komumst í ágætar stöður og fengum kannski tvö til þrjú fín færi í fyrri. Gott að ná inn góðu marki fyrir hálfleik og svo bara frábær seinni hálfleikur.“ sagði Andri Lucas Gudjohnsen, framherji Íslenska landsliðsins, eftir 5-0 sigur á Aserbaídsjan í kvöld.
Lestu um leikinn: Ísland 5 - 0 Aserbaídsjan
Andri kom útaf á 68. mínútu fyrir bróður sinn Daníel Tristan Gudjohnsen í dag.
„Ég er mjög stoltur af bróður mínum. Það var mjög sérstakt. Ég er mjög ánægður að geta upplifað þetta með honum. Það er alltaf gaman að fá sinn fyrsta landsleik þannig ég er bara mjög stoltur af litla bróður.“
Hvernig var það að spila upp á topp í svona leik þar sem færin voru af skornum skammti í fyrri hálfleik en Ísland meira og minna með boltann samt.
„Þetta er pínu skrítin staða. Maður er að reyna að teygja að þeim eins og maður getur og búa til pláss fyrir miðjumenn til þess að reyna að fá boltann í hálf svæðin svo við getum skapað okkur einhver færi. Það var ekkert mikið að frétta í fyrri, kannski tvö til þrjú hálf færi sem maður fékk. Maður þarf bara að vera þolinmóður sem framherji. Ég hélt reyndar að ég hafi náð að skora. Ég hélt að skallinn væri inni í seinni hálfleik. En það er bara eins og það er.“
Næsta verkefni sem bíður Íslands er afar erfitt þegar þeir mæta Frökkum í París á þriðjudaginn.
„Þetta verður mjög erfiður leikur, Frakkland í Paris. En við hefðum varla getað byrjað betur. Við munum fara vel yfir leikskipulagið á þriðjudaginn og vonandi getum við sótt í einhver úrslit.“ sagði Andri að lokum.
Viðtalið við Andra má finna í heild sinni í spilaranum hér að ofan.
Athugasemdir