
Ísland fór hamförum í seinni hálfleik gegn Aserbaísjan á Laugardalsvelli i kvöld í undankeppni HM 2026. Guðlaugur Victor Pálssoon kom liðinu yfir í blálok fyrri hálfleiks.
Lestu um leikinn: Ísland 5 - 0 Aserbaídsjan
„Þetta er langmikilvægasta mark leiksins. Þetta dregur Aserana aðeins framar á völlinn. VIð töluðum um það í hálfleik að við búumst við því að þeir myndu halda sama leikskipulagi þangað til undir lokin," sagði Kári Árnason, sérfræðingur á SÝN Sport, yfir leiknum.
„En þeir skríða aðeins framar á völliinn og þannig byrjum við að skapa endalaust af færum og góðar sóknir í framhaldinu. Ef staðan hefði verið 0-0 hefði getað komið stress. Arnar setti ábyrgð á menn og sagði að við yrðum að vinna. Maður veit ekki hvernig þetta hefði spilast ef Gulli hefði ekki náð að stanga þennan inn."
Ísak Bergmann Jóhannesson skoraði tvö mörk snemma í seinni hálfleik og gerði svo gott sem út um leikinn. Seinna markið var sérstaklega glæsilegt þar sem íslenska liðið spilaði boltanum vel á milli sín en hann endaði hjá Ísaki i markteignum sem skoraði örugglega.
„Þetta er eitt fallegasta mark sem Ísland hefur skorað. Þetta er æðislegt mark. Svona mörk eru skoruð á æfingum stundum," sagði Kári.
„Boltinn gekk rosalega vel manna á milli allan seinni hálfleikinn. Þessir strákar eru allir með gæði í fótunum og þess vegna hafa þeir þessa trú," sagði Bjarni Guðjónsson.
Athugasemdir