
Ísland mætir Aserbaídsjan annað kvöld í fyrsta leik sínum í undankeppni HM. Hákon Arnar Haraldsson tekur við fyrirliðabandinu í komandi leikjum og lofaði marki á morgun á blaðamannafundi landsliðsins í hádeginu.
Orri Steinn Óskarsson, fyrirliði liðsins, er utan hóps vegna meiðsla og því stígur Hákon inn í hans hlutverk, líkt og í síðasta glugga. Hákon mætti á blaðamannafund liðsins í hádeginu og svaraði spurningum fjölmiðla.
Orri Steinn Óskarsson, fyrirliði liðsins, er utan hóps vegna meiðsla og því stígur Hákon inn í hans hlutverk, líkt og í síðasta glugga. Hákon mætti á blaðamannafund liðsins í hádeginu og svaraði spurningum fjölmiðla.
„Ég og Orri erum aldrei saman í glugga, þetta er alveg galið núna. Hann er annað hvort meiddur ef að ég er ekki meiddur.“
„Fyrirliðahlutverkið venst meira, maður lærir meira inn á þetta og lærir frá eldri leikmönnunum hvernig þetta virkar.“
Hákon er leikmaður Lille í Frakklandi og hefur byrjað tímabilið vel, búinn að skora tvö mörk í fyrstu þremur leikjunum.
„Ég byrjaði persónulega mjög vel, og liðið líka. Mér líður mjög vel og er í toppstandi. Ég er búinn að skora óvenju mikið, og er mjög spenntur og klár í slaginn.“
Þá tekur Arnar Gunnlaugsson, landsliðsþjálfari orðið og segir: „Þú átt eftir að skora fyrir mig.“ Hákon svaraði Arnari um hæl: „Það kemur á morgun.“
Hákon var spurður út í hvort þetta sé undankeppnin þar sem yngri kynslóðin myndi láta til sín taka.
„Það er kominn tími til að við gerum það. Við erum ekki búnir að vera nægilega góðir upp á síðkastið. Við yngri fáum stórt tækifæri núna til að sýna hvað í okkur býr.“
Karlalandsliðið leikur sinn fyrsta leik á endurbættum Laugardalsvelli, Hákon segir grasið vera í hæsta gæðaflokki.
„Völlurinn er í toppstandi, ég hef spilað á mörgum góðum völlum, þetta er svipað og í stærstu klúbbum í Evrópu. Frábært að við séum komnir með góðan völl sem hægt er að spila góðan fótbolta á.“
Athugasemdir