
Íslenska karlalandsliðið vann Aserbaídsjan á Laugardalsvelli í kvöld sannfærandi 5-0.
Strákarnir voru lengi í gang en eftir hornspyrnu Alberts Guðmundssonar undir blálok fyrri hálfleiks braut Guðlaugur Victor ísinn. Okkar menn fóru svo á kostum í síðari hálfleiknum og bættu við fjórum mörkum.
Arnar Gunnlaugsson landsliðsþjálfari sat fyrir svörum á blaðamannafundi eftir þennan frábæra sigur.
Lestu um leikinn: Ísland 5 - 0 Aserbaídsjan
„Mér fannst við stjórna leiknum mjög vel, það er erfitt að spila gegn lágvörn en að sama skapi er erfitt fyrir lið að spila lágvörn í 90.mínútur þannig mér fannst við leggja grunninn af sterkum sigri í fyrri hálfleik, þegar við létum boltann ganga og þegar þú gerir það þá þreytir þú andstæðinginn og þeir missa einbeitinguna þannig ljúft að fá markið mínútu fyrir hálfleik dýnamík inn í hálfleikinn og svo fylgja því eftir með sterkri frammistöðu í seinni hálfleik."
„Ég veit að það eru margir ekki sammála mér en ég var mjög ánægður með fyrri hálfleikinn, þetta er virkilega erfitt að brjóta svona varnir á bak aftur, það tekur tíma og þolinmæði og þú verður að halda aga og strúktúr og mér fannst við gera það mjög vel."
Arnar Gunnlaugsson var spurður út í Guðlaug Victor Pálsson og Albert Guðmundsson sem fóru báðir útaf meiddir.
„Gulli fékk bara krampa og ég á ekki von á að það verði eitthvað alvarlegt. Albert tekur meðferð í kvöld og vonandi fáum við betri greiningu á morgun þannig við vonum það besta."
Ísland komst yfir á flautumarki í uppbótartíma. Hversu mikilvægt var að fá það mark inn í hálfleikinn?
„Það var bara gríðarlega mikilvægt. Maður sá alveg að Aserarnir voru orðnir þreyttir þarna í fyrri hálfleik og hvað er það fyrsta sem fer þegar þú ert þreyttur, það er einbeiting og þeir voru útum allt í þessu horni og vel uppsett hjá Davíð aðstoðarþjálfara og svo erum við með frábæran spyrnumann í Alberti. Þetta er held ég fjórða stóðsendingin hans í síðustu fjórum landsleikjum úr hornspyrnum og aukaspyrnum þannig að virkilega vel gert og frábær tími."
Þriðja markið var stórkostlegt sem Ísak Bergmann Jóhanesson skoraði og Arnar Gunnlaugsson var spurður út í það.
„Þetta var virkilega skemmtilegt, það var mikil dýnamík í því, hraðabreytingar og við erum með toppleikmenn á síðasta þriðjungi og svo líka eftir annað markið fannst mér menn geta notið sín betur, þetta er stressandi umhverfi, þetta er undankeppni HM og það má ekkert út af bregða og leikmenn höndluðu pressuna gríðarlega vel í kvöld. Eftir annað markið þá fannst mér við virkilega geta farið að njóta okkar og sýna hvað í okkur býr því það er inni á milli helvíti skemmtilegir fótboltamenn."
Arnar Gunnlaugsson var gríðarlega ánægður með þá leikmenn sem komu inn í leikinn.
„Ég er eiginilega mest ánægður með hvernig þeir héldu strúkturnum vel því stundum þegar þú ert kominn inná í stöðunni 3 eða 4-0 þá ferðu að spila fyrir sjálfan þig og vilt taka leikinn í einhverja vitleysu, vera með hælspyrnur og læti. Þeir voru fannst mér vera með varnarskipulagðið á hreinu og voru síðan sóknarleikinn þannig ég var virkilega ánægður með hugarfar þeirra sem komu inná og ekki spilti fyrir að gefa Daníeli Tristan mínútur og Binni spilar örugglega sinni fyrsta landsleik í nokkur ár, Kristian kom mjög vel inn og Mikael líka þannig við bara lokuðum leiknum fagmannlega fannst mér."
Framundan er leikur gegn Frakklandi. Getum við tekið eitthvað jákvætt í kvöld inn í þann leik sem verður allt annar leikur.
„Þegar við erum á okkar degi þá getum við gert ansi góða hluti, við getum líka tekið jákvætt fyrir að við fengum fólkið okkar til að brosa aftur og mér finnst eins og það sé langt síðan við sendum fólkið okkar jafn ánægt af Laugardalsvelli og fólk vonandi sá svona smá glimpsur inn í framtíðina en hafandi sagt það þá náttúrulega vitum við það að við eigum eftir að mæta sterkari andstæðingum þannig við tökum bara það jákvæða að við stóðumst fyrstu prófraunina, við töluðum um það fyrir leik að við yrðum að vinna og það er mjög jákvætt að strákarnir okkar þrátt fyrir að vera ungir að árum séu að taka pressuna á sig og vera meðvitaðir um hvað fylgi því að vera elítu leikmaður þannig það er margt gott sem kom út úr þessu."
Athugasemdir