
„Ég ætla ekki alveg að taka það djúpt í árina að þetta sé upp á líf og dauða, en þetta er nálægt því,“ sagði landsliðsþjálfarinn Arnar Gunnlaugsson sem sat fyrir svörum á blaðamannafundi í hádeginu í tilefni leiks íslenska landsliðsins og Aserbaídsjan annað kvöld.
Leikurinn fer fram á Laugardalsvelli og er fyrsti leikur Íslands í undankeppni HM.
Leikurinn fer fram á Laugardalsvelli og er fyrsti leikur Íslands í undankeppni HM.
Lestu um leikinn: Ísland 0 - 0 Aserbaídsjan
„Ég skynja það að strákarnir eru sammála mér, við ætlum að kýla á þetta. Til þess að það raungerist þá er þetta „must-win“ á morgun. Mér finnst það pressa sem við eigum að setja á okkur.“
Ísland er í 74. sæti á styrkleikalista FIFA en Aserbaídsjan situr í 122. sæti
„Tölum bara íslensku þetta er lið sem við eigum að vinna á okkar góða degi. Ég endurtek að dagurinn þurfi að vera virkilega góður og allir þurfa að vera á sínum degi svo að við sækjum þessi þrjú stig. Við finnum hvernig umtalið er, við eigum að vinna þennan leik þá þarf allt að ganga upp.“
Aserbaídsjan er án sigurs í síðustu tíu leikjum þeirra. Arnar segir þó Ísland verða að fara að fullum hug inn í leikinn.
„Þeir eru með mjög reynslumikinn þjálfara. Santos gerði Portúgal að Evrópumeisturum, gamall refur. Þeim hefur ekki gengið vel í síðustu tíu leikjum að ná í úrslit. Mín reynsla af alþjóðlegum fótbolta er sú að hvaða styrkleikaflokki þú ert í, þá þarftu að fara í alla leiki með fullum hug og vera með fulla einbeitingu annars fer illa.“
Arnar er ánægður með stöðuna á íslenska hópnum.
„Mér hefur aldrei liðið jafn vel með hópinn og núna, það er kannski ástæða fyrir því. Í mars- og júní glugganum er langt tímabil að baki, en nú er september og leikjaálagið ekki enn farið að segja til sín.“
„Mér finnst allir hrikalega ferskir, menn „on it“, æfingarnar stórkostlegar og völlurinn geggjaður, ég er með virkilega góða tilfinningu fyrir þessum leik. Strákarnir eru spenntir, en ekki of spenntir. Spennustigið er rétt og menn eru staðráðnir að gera sitt besta og sýna hvað við erum búnir að læra undanfarna fjóra leiki.“
Athugasemdir