
Íslenska landsliðið hefur leik í undankeppni HM í kvöld þegar liðið mætir Aserbaídsjan. Flautað verður til leiks á Laugardalsvelli klukkan 18:45.
Lestu um leikinn: Ísland 1 - 0 Aserbaídsjan
Arnar Gunnlaugsson hefur opinberað byrjunarlið sitt fyrir leik kvöldsins. Landsliðsþjálfarinn ræddi við stuðningsmenn á Ölver fyrir skömmu og tilkynnti þar að liðið myndi leika í 4-4-1-1 kerfi.
Í sjónvarpinu hér að ofan fer Tómas Þór Þórðarson yfir byrjunarlið Íslands í kvöld
Arnar segir að með uppstillingu liðsins sé hann að horfa til vináttuleiks Íslands gegn Skotlandi í júní, þar sem Ísland fór með 3-1 sigur af hólmi. Arnar gerir aðeins eina breytingu á byrjunarliði sínu frá Skotaleiknum þar sem Daníel Leó kemur í stað Harðar Björgvins.
Elías Rafn Ólafsson byrjar í marki Íslands, en fyrir framan hann eru hafsentarnir tveir, Daníel Leó Grétarsson og Sverrir Ingi Ingason. Þá byrjar Mikael Egill Ellertsson í vinstri bakverði og Guðlaugur Victor Pálsson hægra megin.
Á miðri miðjunni eru skagamennirnir tveir Stefán Teitur Þórðarson og Ísak Bergmann Jóhannesson. Albert Guðmundsson mun þá spila á vinstri kanti og Jón Dagur Þorsteinsson verður hægra megin.
Fyrirliði liðsins, Hákon Arnar Haraldsson, mun spila fyrir aftan Andra Lucas Guðjohnsen sem leiðir framlínuna.

Athugasemdir