Chelsea verðmetur Jackson á 100 milljónir punda - Rashford efstur á óskalista Barcelona - Sancho til Juventus?
   þri 07. janúar 2020 16:15
Magnús Már Einarsson
Bielsa röltir á æfingu og heldur þjálfarafundi á kaffihúsi
Marcelo Bielsa hefur gert magnaða hluti hjá Leeds síðan hann tók við liðinu sumarið 2018. Bielsa er með Leeds á toppi Championship deildarinnar en í gær tapaði liðið naumlega 1-0 gegn Arsenal í bikarnum.

Þessi 64 ára gamli Argentínumaður fer sínar eigin leiðir og ekki er hægt að segja að hann lifi glamúr lífi á Englandi.

Bielsa leigir litla eins herbergja íbúð í Leeds en hann labbar oft á æfingasvæði félagsins í stað þess að keyra á glæsibifreið eins og flestir kollegar hans gera.

Stuðningsmenn Leeds hafa oft séð Bielsa labba á æfingasvæðið með bakpoka á bakinu en þar er hann með blöð sem tengjast taktík liðsins.

Bielsa er taktískur snillingur en hann er þó ekki alltaf á skrifstofu sinni á æfingasvæðinu með fundi með þjálfarateyminu.

Þess í stað fer Bielsa oft á kaffihús hjá Costa með þjálfarateyminu. Þar er fundað um taktík og liðsval. Aðrir stjórar á Englandi halda slíka fundi vanalega á æfingasvæðinu.

Bielsa fer helst ekki úr þjálfaragallanum sínum og stuðningsmenn Leeds hafa ítrekað birt myndir á samfélagsmiðlum þar sem hann sést versla í matinn klæddur í æfingagalla Leeds.

Athugasemdir