banner
   fim 07. janúar 2021 17:00
Magnús Már Einarsson
Meira en ár frá síðasta marki Traore - Leggur heldur ekki upp
Mynd: Getty Images
Meira en ár er síðan kantmaðurinn Adama Traore skoraði í ensku úrvalsdeildinni með Wolves. Samtal hefur Traore spilað 37 klukkutíma og 21 mínútu í röð án þess að skora.

Traore átti góða spretti á síðasta tímabili með Wolves en á þessu tímabili hefur hann hvorki lagt upp né skorað mark.

Traore hefur spilað í 24 klukkutíma og 22 mínútur síðan hann lagði síðast upp mark í úrvalsdeildinni, fyrir Raul Jimenez gegn Bournemouth.

Í grein The Athletic er þessi tölfræði tekin saman en á síðasta tímabili skoraði Traore fjögur mörk og lagði upp níu í 37 leikjum. Á þessu tímabili hefur hann ekki náð að eiga beinan þátt í mörkum í sautján leikjum.

Helsti kostur Traore sem leikmanns er að leika á varnarmenn en þar er hann efstur í tölfræðinni í úrvalsdeildinni á þessu tímabili.

Traore hefur reynt 94 sinnum að leika á mann en Marcus Rashford kemur næstur þar með 77 skipti.

62 sinnum hefur Traore tekist að fara framhjá varnarmönnum en það er einnig hæsta talan í deildinni. Andre-Frank Anguissa kemur næst með 50 skipti.

Stuðningsmenn Úlfana vonast hins vegar til þess að Traore fari að skora eða leggja upp fleiri mörk enda virtist hann vera kominn á flug í stoðsendingum á síðasta tímabili.
Athugasemdir
banner
banner
banner