Enzo Maresca þjálfari Chelsea hrósaði Reece James fyrirliða félagsins í hástert eftir 1-2 sigur á útivelli gegn FC Kaupmannahöfn í 16-liða úrslitum Sambandsdeildarinnar í gærkvöldi.
James hefur verið mikið frá vegna meiðsla á síðustu árum en í hvert skipti sem hann spilar skína gæðin hans í gegn. Hann skoraði glæsilegt mark í sigrinum gegn Kaupmannahöfn en það eru aðeins tveir mánuðir liðnir síðan hann sneri til baka úr síðustu meiðslum.
„Hann er ótrúlega mikilvægur fyrir okkur, hann er fyrirliðinn okkar og stórkostlegur leikmaður. Við þurfum á honum að halda og það er okkar skylda að halda honum ómeiddum og við góða heilsu. Þetta er mikill gæðaleikmaður sem getur spilað margar stöður. Bestu fótboltamennirnir geta yfirleitt spilað margar stöður," sagði Maresca.
„Þegar ég tók við þjálfarastarfinu hjá Chelsea sendi ég skilaboð til Reece strax á fyrsta degi með myndbandi til að útskýra fyrir honum að ég lít á hann sem miðjumann. Hann hefur spilað sem miðvörður og hægri bakvörður hjá Chelsea en ég sé hann sem miðjumann."
James spilar yfirleitt sem hægri bakvörður en í gær var hann notaður sem varnartengiliður alveg eins og gegn Aston Villa í lok febrúar. Hann stóð sig mjög vel á miðjunni gegn FCK þó hann hafi lent í erfiðleikum í tapinu gegn Villa.
„Þegar maður horfir á leikmann spila fótbolta þarf maður stundum að nota ímyndunaraflið til að ímynda sér leikmanninn spila í öðru hlutverki. Ég horfði á nokkra gamla leiki hjá Reece frá því þegar hann var á láni hjá Wigan og skoraði meðal annars glæsilegt mark af 25 eða 30 metra færi.
„Hann er gríðarlega öflugur leikmaður og það besta við hann á þessum tímapunkti er að hann er að hjálpa liðinu mjög mikið sem leiðtogi. Við þurfum fleiri leiðtoga."
Athugasemdir