Íslendingaliðið Triestina sem leikur í C-deildinni á Ítalíu er í veseni og hefur fengið refsingu vegna ýmissa brota. Ítalska fótboltasambandið hefur dregið fimm stig af liðinu.
Liðið leikur í A-riðli í C-deild og er komið niður í 17. sæti eftir úrskurðinn. Liðið hafði komið sér upp í 15. sætið sem er neðsta sætið fyrir utan fallsvæðið.
Kristófer Jónsson er leikmaður liðsins en hann hefur skorað eitt mark í 19 leikjum á þessari leiktíð. Markús Páll Ellertsson gekk til liðs við félagið í síðasta mánuði. Þá gekk Stígur Diljan Þórðarson til liðs við Víking frá Triestina fyrir áramót.
„Við urðum fyrir miklum vonbrigðum með þennan dóm, sem við teljum vera of þungur. Við höfum starfað í góðri trú til að standa við fjárhagslegar skuldbindingar okkar og leysa útistandandi mál á áætluðum tíma. Klúbburinn er nú að meta lagalega möguleika sína, þar á meðal hugsanlega áfrýjun, og mun veita uppfærslur þegar þær verða tiltækar," segir í yfirlýsingu frá Triestina.
Athugasemdir