Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
banner
   sun 07. ágúst 2022 18:57
Brynjar Ingi Erluson
Besta deildin: Eyjamenn áttu engin svör við Atla sem gerði þrennu - KA ekki í vandræðum með FH
Atli Sigurjónsson skoraði þrjú fyrir KR á Meistaravöllum
Atli Sigurjónsson skoraði þrjú fyrir KR á Meistaravöllum
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Aron Kristófer Lárusson átti frábæran sprett í fyrsta marki KR
Aron Kristófer Lárusson átti frábæran sprett í fyrsta marki KR
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Nökkvi Þeyr og félagar unnu FH örugglega
Nökkvi Þeyr og félagar unnu FH örugglega
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það gengur lítið hjá FH þessa dagana
Það gengur lítið hjá FH þessa dagana
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
KR vann öruggan 4-0 sigur á ÍBV er liðin mættust í 16. umferð Bestu deildar karla á Meistaravöllum í kvöld. Atli Sigurjónsson skoraði þrennu fyrir heimamenn. Á sama tíma vann KA góðan 3-0 sigur á FH á Kaplakrikavelli og er nú komið upp í 2. sæti deildarinnar.

KR-ingar unnu ÍBV nokkuð sannfærandi á Meistaravöllum, 4-0, en það voru Eyjamenn sem hófu leikinn á sannkölluðu dauðafæri er Guðjón Ernir Hrafnkelsson komst einn á móti Beiti Ólafssyni en markvörðurinn gerði vel í að verja.

Nokkrum mínútum síðar komust KR-ingar yfir. Aron Kristófer Lárusson átti magnaðan sprett á vinstri vængnum þar sem hann prjónaði sig framhjá tveimur leikmönnum ÍBV áður en hann kom með fastan bolta fyrir markið á Sigurð Bjart Hallsson sem skilaði honum í netið.

Hallur Hallsson var nálægt því að skora eitt af mörkum tímabilsins á 23. mínútu eftir frábæra sendingu frá Atla Sigurjónssyni en Guðjón Orri Sigurjónsson varði vel í markinu.

Annað mark KR kom á 37. mínútu. Atli var með boltann fyrir utan teiginn, lagði boltann á vinstri og þrumaði honum í netið, en það má setja bæði spurningamerki við varnarleik ÍBV sem og Guðjón Orra í markinu sem hefði mögulega getað varið skotið.

Staðan 2-0 fyrir KR í hálfleik. Stefan Ljubicic kom inn fyrir Sigurð Bjart í hálfleik og var hann hársbreidd frá því að koma KR í 3-0 á 50. mínútu en skalli hans fór rétt framhjá.

Þremur mínútum síðar gerði Atli annað mark sitt og í þetta sinn með hægri. Laglegt skot eftir sendingu frá Aroni Þórði Albertssyni og söng boltinn í netinu.

Atli fullkomnaði þrennu sína á 87. mínútu. Theodór Elmar Bjarnason átti sendingu á Atla, sem var með Eið Aron Sigurbjörnsson í sér, en hann setti boltann yfir á vinstri löppina og skoraði auðvitað. Stórkostlegur leikur frá honum í dag.

Eyjamenn voru alls ekki að spila illa en nýttu stöður sínar illa á meðan KR nýtti sínar og áttu Eyjamenn engin svör við Atla Sigurjónssyni. Lokatölur í Vesturbæ, 4-0 fyrir KR, sem er í 6. sæti með 24 stig en ÍBV í 9. sæti með 12 stig.

Ekkert gengur hjá FH

KA vann FH nokkuð örugglega, 3-0, er liðin áttust við á Kaplakrikavelli.

FH-ingar komu sér í góðar stöður í byrjun leiks og voru hættulegir fram á við en náðu sér ekki að nýta sér það nægilega vel. Það var því skellur fyrir liðið að lenda undir á 25. mínútu.

Hallgrímur Mar Steingrímsson gerði markið. Nökkvi Þeyr Þórisson keyrði inn í teiginn og virtist missa boltann aðeins of langt frá sér en Hallgrímur náði að bregðast við og koma sér í boltann og skila honum framhjá Gunnari Nielsen í markinu.

KA-menn voru hungraðir í meira og pressuðu á FH. Nokkur færi sköpuðust áður en KA fékk víti á 38. mínútu eftir að Guðmundur Kristjánsson braut á Elfari Árna Aðalsteinssyni í teignum. Nökkvi Þeyr sendi Gunnar í vitlaust horn og kom KA í 2-0.

FH-ingar litu aðeins betur út í þeim síðari en vandamálið var svipað og í síðustu leikjum að koma boltanum í netið.

KA var hins vegar í engum vandræðum með það og kom þriðja markið sjö mínútum fyrir leikslok. Bryan van den Bogaert gerði það eftir að hafa fengið góða sendingu frá Nökkva inn fyrir og afgreiddi hann boltann í netið.

Öruggur 3-0 sigur KA staðreynd. Liðið er í 2. sæti með 30 stig en FH í þvílíku basli og situr í 10. sæti með 11 stig.

Úrslit og markaskorarar:

FH 0 - 3 KA
0-1 Hallgrímur Mar Steingrímsson ('25 )
0-2 Nökkvi Þeyr Þórisson ('39 , víti)
0-3 Bryan Van Den Bogaert ('83 )
Lestu um leikinn

KR 4 - 0 ÍBV
1-0 Sigurður Bjartur Hallsson ('9 )
2-0 Atli Sigurjónsson ('37 )
3-0 Atli Sigurjónsson ('53 )
4-0 Atli Sigurjónsson ('87 )
Lestu um leikinn
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner