Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
banner
   fim 08. júní 2023 21:24
Ívan Guðjón Baldursson
Lengjudeildin: Fjölnir og Njarðvík jöfnuðu á heimavelli
Lengjudeildin
Máni Austmann er kominn með fimm mörk í sex leikjum í Lengjudeildinni.
Máni Austmann er kominn með fimm mörk í sex leikjum í Lengjudeildinni.
Mynd: Baldvin Berndsen
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Luqman Hakim Shamsudin bjargaði dýrmætu stigi fyrir Njarðvíkinga.
Luqman Hakim Shamsudin bjargaði dýrmætu stigi fyrir Njarðvíkinga.
Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir

Það fóru tveir leikir fram í Lengjudeild karla í kvöld þar sem topplið Fjölnis tók á móti Gróttu á meðan Njarðvík fékk Selfoss í heimsókn.


Fjölnismenn lentu undir snemma leiks þegar Grótta kíkti í heimsókn í Grafarvoginn. Pétur Theódór Árnason tók forystuna með skalla eftir aukaspyrnu á tíundu mínútu og leiddi Grótta allt þar til undir lok fyrri hálfleiks, þegar Axel Freyr Harðarson jafnaði metin fyrir heimamenn.

Staðan var jöfn 1-1 eftir flottan fyrri hálfleik sem einkenndist af mikilli baráttu.

Tómas Johannessen kom Gróttu yfir á nýjan leik í upphafi síðari hálfleiks þegar hann skallaði góða fyrirgjöf í netið, en þremur mínútum síðar jöfnuðu heimamenn með þriðja skallamarki leiksins. Máni Austmann Hilmarsson skallaði þá fyrirgjöf Axels Freys í netið.

Leikurinn dó út við annað jöfnunarmark Fjölnis og var lítið að frétta á síðasta hálftíma leiksins. Lokatölur urðu 2-2 og er Fjölnir á toppi Lengjudeildarinnar með 14 stig eftir 6 umferðir. 

Grótta er um miðja deild með sjö stig.

Lestu um leikinn

Fjölnir 2 - 2 Grótta
0-1 Pétur Theódór Árnason ('10)
1-1 Axel Freyr Harðarson ('44)
1-2 Tómas Johannessen ('54)
2-2 Máni Austmann Hilmarsson ('57)

Í Reykjanesbæ tók Selfoss forystuna snemma leiks gegn Njarðvíkingum. Selfyssingar nýttu sér slæma sendingu frá Walid Essafi markverði til að vinna boltann hátt uppi á vellinum og koma sér í gott færi. Walid varði þó tilraunina frá Gary Martin en Guðmundur Tyrfingsson var mættur til að fylgja eftir.

Fyrri hálfleikurinn var nokkuð tíðindalítill en gestirnir frá Selfossi voru líklegri til að skora. Þeir komust næst því á 37. mínútu, þegar Walid var með aðra lélega sendingu úr markinu en Aroni Fannari Birgissyni tókst ekki að nýta færið sem skapaðist.

Selfoss var líklegra til að bæta við marki heldur en heimamenn í Njarðvík til að jafna en Gary Martin og félögum tókst ekki að tvöfalda forystuna. Þess í stað unnu Njarðvíkingar sig aftur inn í leikinn og skoruðu jöfnunarmark á lokakaflanum.

Luqman Hakim Shamsudin tókst að jafna á 84. mínútu en hvorugt lið náði að gera sigurmark. 

Selfoss deilir þriðja sæti Lengjudeildarinnar með Grindavík þar sem liðin eiga 10 stig, á meðan Njarðvík er með sex stig eftir sex umferðir.

Lestu um leikinn

Njarðvík 1 - 1 Selfoss
0-1 Guðmundur Tyrfingsson ('17)
1-1 Luqman Hakim Shamsudin ('84)


Athugasemdir
banner
banner
banner