Brighton neitaði beiðnum um kantmanninn efnilega Tommy Watson í sumar.
Watson er aðeins 19 ára gamall og hjálpaði Sunderland að komast upp úr Championship deildinni á síðustu leiktíð. Brighton keypti leikmanninn fyrir um 11 milljónir punda í vor og hefur hann hrifið þjálfarateymið á upphafi nýs tímabils þrátt fyrir að vera að glíma við meiðsli.
Ýmis félög reyndu við Watson í ágúst en Brighton neitaði að lána leikmanninn eða selja hann. Portúgalska stórveldið Porto er sérstaklega nefnt til sögunnar.
Watson, sem var kallaður upp í U21 landslið Englands á dögunum, gerði fjögurra ára samning við Brighton og gæti Fabian Hürzeler notað hann í vetur.
Watson er spenntur fyrir framtíð sinni hjá Brighton og vill berjast við Kaoru Mitoma um byrjunarliðssætið á vinstri kantinum.
Hann á ellefu leiki að baki fyrir yngri landslið Englands. Hann kom að 12 mörkum í 30 leikjum með Sunderland á síðustu leiktíð.
Athugasemdir