Fernandes gæti farið frá Man Utd á næsta ári - Stórliðin berjast um Guehi - Fer Andrey Santos frá Chelsea?
   sun 07. september 2025 16:47
Brynjar Ingi Erluson
Onana til Trabzonspor á láni - „Here we go!“
Onana er á förum frá United
Onana er á förum frá United
Mynd: EPA
Kamerúnski markvörðurinn André Onana hefur samþykkt að ganga í raðir Trabzonspor á láni frá Manchester United. Fabrizio Romano greinir frá þessu á X.

Trabzonspor, sem er eitt af sterkustu liðum Tyrklands, náði munnlegu samkomulagi við United um Onana í gær.

Romano segir Onana nú hafa samþykkt að fara til félagsins á láni og sé búinn að skrifa undir alla pappíra.

Hann mun ferðast til Tyrklands á næstu dögum til ganga frá félagaskiptunum, en Trabzonspor greiðir ekkert lánsfé og þá er ekkert kaupákvæði í samningnum.

Onana er 29 ára gamall og verið á mála hjá Man Utd frá 2023. Hann kom frá Inter sem komst alla leið í úrslitaleik Meistaradeildarinnar það árið, en náði ekki að fóta sig hjá United.

Á þessu tímabili hefur hann aðeins spilað einn leik með United, í tapi gegn Grimsby Town í deildabikarnum þar sem hann gerði tvö afdrifarík mistök í mörkum D-deildarliðsins.

Markvörðurinn fer nú til Tyrklands í von um að ganga í gegnum endurnýjun lífdaga eftir tvö slök tímabil með United.


Athugasemdir
banner