Fernandes gæti farið frá Man Utd á næsta ári - Stórliðin berjast um Guehi - Fer Andrey Santos frá Chelsea?
   sun 07. september 2025 09:00
Ívan Guðjón Baldursson
Tuchel ánægður: Algjörlega sannfærður
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Thomas Tuchel landsliðsþjáfari Englendinga var kátur eftir 2-0 sigur gegn Andorra í undankeppni HM í gær, þó að stuðningsmenn hafi viljað sjá stærri sigur.

Englendingar gáfu ekki færi á sér gegn smáþjóðinni en þeir sköpuðu sér heldur ekki mikið. Sjálfsmark frá Christian Garcia og skallamark frá Declan Rice tryggðu sigurinn á Villa Park.

England er þar með búið að sigra fjóra keppnisleiki af fjórum undir stjórn Tuchel, þar sem 3-1 tap í æfingaleik gegn Senegal telst ekki með.

„Við erum að nálgast staðinn sem við viljum vera á. Ég er ennþá að læra á þetta starf, það er svo mikill munur á því að vera landsliðsþjálfari og þjálfari hjá félagsliði. Ég er að venjast þessari breytingu," sagði Tuchel eftir sigurinn gegn Andorra.

„Ég er algjörlega sannfærður um að við séum á réttri braut. Við eigum bara eftir að fínpússa ákveðin atriði."

England vann fyrri leik liðanna aðeins með eins marks mun í Andorru og var Tuchel ósáttur með frammistöðu sinna manna þar. Hann var kátur með frammistöðuna í kvöld þó að tölfræðin hafi ekki verið mikið betri heldur en í júní.

Englendingar sköpuðu fleiri og hættulegri færi í fyrri leiknum erlendis en skoruðu færri mörk.

„Mér fannst frammistaðan góð gegn liði sem varðist mjög aftarlega. Við sköpuðum mikið af góðum færum sem við nýttum ekki. Seinna markið var nóg til að gera út um leikinn. Ég er virkilega sáttur með þessa frammistöðu, hún var mun betri heldur en á útivelli í júní."

England er með markatöluna 8-0 eftir fjóra sigra í undankeppninni. Tveir sigrarnir komu gegn Andorra, einn gegn Albaníu og einn gegn Lettlandi.
Athugasemdir
banner