Barcelona í baráttuna um Guehi - Man Utd reynir aftur við Baleba á næsta ári - Muniz fær nýjan samning
   lau 06. september 2025 19:44
Ívan Guðjón Baldursson
Karólína skoraði í Íslendingaslag - Sigrar hjá Hildi og Vigdísi
Kvenaboltinn
Mynd: Inter
Mynd: Fótbolti.net - Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Mynd: Anderlecht
Síðustu leikjum dagsins er lokið þar sem Íslendingar komu við sögu víða um Evrópu.

Á Ítalíu var Íslendingaslagur þegar Karólína Lea Vilhjálmsdóttir skoraði í 3-1 sigri Inter gegn Fiorentina.

Karólína Lea var ásamt Cecilíu Rán Rúnarsdóttur í byrjunarliði Inter en Iris Ómarsdóttir og Katla Tryggvadóttir byrjuðu á bekknum hjá Fiorentina.

Hin norsk-íslenska Iris fékk að spreyta sig síðasta hálftíma leiksins en tókst ekki að hafa áhrif á úrslitin.

Liðin mættust í riðlakeppni Serie A bikarsins og er Inter með sex stig eftir tvær umferðir. Fiorentina á þrjú stig, en Genoa og Como eru einnig með í riðlinum.

Í efstu deild á Spáni lék Hildur Antonsdóttir allan leikinn í 1-0 sigri Madrid gegn Eibar. Madrid er með fjögur stig eftir tvær fyrstu umferðirnar.

Að lokum var leikið í efstu deild í Belgíu. Þar var Vigdís Lilja Kristjánsdóttir á sínum stað í byrjunarliði Anderlecht sem sigraði gegn Westerlo í fyrstu umferð á nýju deildartímabili.

Glódís Perla Viggósdóttir var ekki með FC Bayern frekar en í öðrum leikjum á upphafi tímabils. Hún er fyrirliði félagsins en stöllur hennar sigruðu 2-0 gegn Bayer Leverkusen í dag er liðin mættust í fyrstu umferð á nýju deildartímabili.

Inter 3 - 1 Fiorentina
1-0 E. Polli ('2)
2-0 Karólína Lea Vilhjálmsdóttir ('4)
2-1 S. Bredgaard ('68)
3-1 H. Bugeja ('78)
Rautt spjald: H. Bugeja, Inter ('90)

Madrid 1 - 0 Eibar
1-0 Monica ('80, víti)

Anderlecht 2 - 0 Westerlo
1-0 T. De Caigny ('2)
2-0 R. Jonusaite ('78)

FC Bayern 2 - 0 Bayer Leverkusen
1-0 V. Gilles ('76)
2-0 K. Buhl ('77)
Athugasemdir