Franski sóknarmaðurinn Ousmane Dembélé, sem er talinn líklegastur til að hreppa Ballon d'Or-verðlaunin eftirsóttu, segist aldrei ætla að láta af þeim vana að borða hamborgara og pítsur eftir leiki.
Dembéle talaði við 442 um hvernig hann lærði á líkama sinn eftir að hafa gengið í gegnum erfið meiðsli hjá Barcelona.
Hann fór ungur að árum til Barcelona og treysti þá aðeins á hæfileika sína og orku. Þegar meiðslin fóru að gera vart við sig áttaði hann sig á því að það þyrfti meira til þess að halda sér við.
„Það hjálpaði mikið. Eftir það þá lærði ég að ég þyrfti að leggja mikið á mig á æfingum, styrkja mig, borða vel og fá góðan svefn. Þessi ávani hefur síðan skilað sér í París. Ég er ótrúlega ánægður með þetta,“ sagði Dembéle.
„Núna er ég alveg kominn með þetta. Ég veit hversu hratt ég á að hlaupa og hvenær ég á að stoppa. Ef mér er sagt að hlaupa ekki hraðar en á 30 kílómetra hraða þá fer ég ekki yfir þau mörk. Ég veit hvenær ég er þreyttur, hvenær ég á að hvíla, æfa og styrkja mig. Á síðustu þremur eða fjórum árum hef ég fullkomnað þekkingu mína á líkamanum.“
„Haha. Við leikmenn borðum alltaf hamborgara eða pítsur eftir leiki. Eða kannski ekki alltaf en mjög oft. Ég er ekki það hrifinn af súkkulaði, sem er bara í góðu lagi, en ég fæ mér hamborgara og pítsur eftir leiki. Það er ávani sem ég mun aldrei hætta,“ sagði Dembélé.
Frakkinn var langbesti leikmaður PSG á síðustu leiktíð er liðið vann þrennuna og Meistaradeildina í fyrsta sinn í sögu félagsins. Flestir eru á því máli að hann verði valinn besti leikmaður heims (Ballon d'Or) á hátíðlegri athöfn í París í lok mánaðar.
Hann verður hins vegar ekki með Frökkum gegn Íslandi í undankeppni HM á þriðjudag vegna meiðsla sem hann varð fyrir í leik Frakka gegn Úkraínu um helgina. Dembélé verður frá í að minnsta kosti sex vikur.
Athugasemdir