Fernandes gæti farið frá Man Utd á næsta ári - Stórliðin berjast um Guehi - Fer Andrey Santos frá Chelsea?
   sun 07. september 2025 15:56
Brynjar Ingi Erluson
Besta deild kvenna: Þróttur tapaði stigum gegn botnliðinu
Kvenaboltinn
Þróttarar voru í miklu basli í vörninni
Þróttarar voru í miklu basli í vörninni
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
FHL skoraði tvö gegn einu besta liði deildarinnar
FHL skoraði tvö gegn einu besta liði deildarinnar
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þróttur R. 2 - 2 FHL
0-1 Björg Gunnlaugsdóttir ('26 )
1-1 Sierra Marie Lelii ('45 )
2-1 María Eva Eyjólfsdóttir ('50 )
2-2 Taylor Marie Hamlett ('60 )
Lestu um leikinn

Þróttur R. tapaði óvænt stigum er liðið gerði 2-2 jafntefli við botnlið FHL í 16. umferð Bestu deildar kvenna á AVIS-vellinum í Laugardal í dag.

Allt stefnir í að FHL falli aftur niður í Lengjudeildina en liðið var aðeins með þrjú stig fyrir leikinn. Þróttur er á meðan í toppbaráttu og situr í 3. sæti.

FHL byrjaði leikinn mjög vel og átti flotta kafla. Vörn Þróttara var sofandi á verðinum er Björg Gunnlaugsdóttir skoraði fyrir gestina á 26. mínútu.

Calliste Brookshire kom boltanum út á hægri kantinn á Björgu sem skoraði með góðu skoti.

Gestirnir gátu tvöfaldað forystuna á 41. mínútu. Björg klobbaði varnarmann áður en hún kom boltanum fyrir á Taylor Marie Hamlett sem náði skotinu en Mollee Swift varði á einhvern ótrúlegan hátt með löppunum.

Þróttarar vöknuðu aðeins til lífsins eftir þetta dauðafæri og náðu að jafna undir lok hálfleiksins. Katie Cousins átti skot sem var varið í þverslá. Þróttarar héldu boltanum og komu honum aftur fyrir markið og á Kaylu Marie Rollins sem setti hann í stöng áður en Sierra Lelii setti boltann inn fyrir línuna.

Brynja Rán Knudsen kom inn af bekknum í hálfleik og lét strax til sín taka. Hún kom með frábæra fyrirgjöf frá hægri vængnum og á Maríu Evu Eyjólfsdóttur sem stangaði boltann í netið.

Áfram hélt Brynja að valda usla og var hún nálægt því að koma Þrótturum í tveggja marka forystu en skalli hennar fór rétt framhjá markinu.

FHL refsaði þegar hálftími var til leiksloka. Björg, sem var að eiga frábæran leik, kom með laglega fyrirgjöf á Hamlett sem jafnaði metin.

Varnarleikurinn hjá Þrótturum var afleitur og fékk FHL alveg færin til þess að komast yfir. Gestirnir komu með fyrirgjöf inn á teiginn sem hafnaði í stönginni og á Alexiu Marin Czerwien sem stóð fyrir framan markið en hún átti afleitt skot upp í loftið. Auðvelt fyrir Swift í markinu.

Fyrr í leiknum átti Czerwien stangarskot eftir fyrirgjöf sem Þróttarar náðu ekki að hreinsa frá. Varnarleikurinn ekki beint til útflutnings í dag.

Liðunum tókst ekki að bæta við mörkum og lokatölur 2-2. Flott úrslit hjá FHL sem er nú með 4 stig á botninum en Þróttur með 30 stig í 3. sæti.
Besta-deild kvenna
Lið L U J T Mörk mun Stig
1.    Breiðablik 16 14 1 1 63 - 12 +51 43
2.    FH 16 11 2 3 39 - 19 +20 35
3.    Þróttur R. 16 9 3 4 29 - 20 +9 30
4.    Valur 16 7 3 6 24 - 24 0 24
5.    Stjarnan 16 7 1 8 26 - 31 -5 22
6.    Þór/KA 16 7 0 9 29 - 31 -2 21
7.    Víkingur R. 16 6 1 9 34 - 38 -4 19
8.    Fram 16 6 0 10 22 - 40 -18 18
9.    Tindastóll 16 5 2 9 20 - 34 -14 17
10.    FHL 16 1 1 14 10 - 47 -37 4
Athugasemdir