Evrópumeistarar Paris Saint-Germain náðu að selja Spánverjana Carlos Soler og Marco Asensio fyrir gluggalok.
Soler heldur heim til Spánar þar sem hann mun leika fyrir Real Sociedad á meðan Asensio fer til Fenerbahce.
Hvorugum leikmanninum tókst að vinna sér inn byrjunarliðsæti í liði PSG undir stjórn Luis Enrique og voru þeir báðir sendir í ensku úrvalsdeildina á lánssamningum á síðustu leiktíð. Soler fór til West Ham og Asensio til Aston Villa en félögin ákváðu að kaupa ekki leikmennina.
Soler er 28 ára gamall og spilaði 63 leiki á tveimur árum hjá PSG.
Asensio er einu ári eldri heldur en samlandi sinn og spilaði 47 leiki á einu og hálfu ári í París.
Samanlagt eiga leikmennirnir yfir 50 landsleiki að baki fyrir Spán.
PSG fær tæplega 20 milljónir evra í kassann fyrir söluna á þessum tveimur leikmönnum.
Spænski markvörðurinn Arnau Tenas var þá seldur til Villarreal eftir að hafa spilað 8 leiki á tveimur árum sem varamarkvörður fyrir Gianluigi Donnarumma.
Athugasemdir