
Evrópumeistarar Paris Saint-Germain hafa sent bréf til franska fótboltasambandsins í kjölfar meiðsla þeirra Ousmane Dembélé og Désiré Doué, en þar kvartar það yfir verklagi landsliðsins og óskar eftir því að því verði breytt.
Doué og Dembélé meiddust báðir í 2-0 sigri Frakklands á Úkraínu um helgina.
Dembélé meiddist aftan í læri og verður frá næstu sex vikur á meðan Doué meiddist aftan í kálfa og verður frá næstu fjórar vikurnar.
Báðir spila stóra rullu í PSG-liðinu og mun þetta því hafa mikil áhrif á Evrópumeistarana.
PSG segist hafa sent franska landsliðinu ítarlegar skýrslur um leikmenn sína áður en þeir mættu til æfinga, en að læknar landsliðsins hafi hunsað upplýsingarnar og ekki ráðfært sig við félagið né leikmenn þess.
Félagið óskar eftir nýju og endurbættu verklagi í kringum leikmenn til að tryggja það að heilsa leikmanna sé í forgangi. Einnig óskar það eftir betri samskiptum milli lækna PSG og landsliðsins.
„Við erum meðvitaðir um stöðu leikmanna sem koma til móts við landsliðið. Við höfum alltaf tekið þessu alvarlega og unnið þetta af fagmennsku, en ég skil viðbrögð PSG,“ sagði Didier Deschamps, þjálfari franska landsliðsins.
„Þú tekur enga áhættu ef þú ert með leikmennina á bekknum. Á meðan þeir eru á vellinum er ekki til neitt sem hægt er að flokka sem áhættulaust. Verklagið er þannig að þeir verða að láta vita af meiðslum á mánudegi. Við fylgjumst síðan með því og sjáum hvernig hlutirnir þróast. Vikuna fyrir þennan leik tókum við þessu mjög alvarlega með því að spyrja leikmennina um líðan þeirra fyrir hverja einustu æfingu,“ sagði Deschamps enn fremur.
Frakkar taka á móti Íslendingum á Parc des Princes í undankeppni HM á þriðjudag. Báðar þjóðir eru með þrjú stig eftir fyrstu umferðina.
Athugasemdir