Julian Nagelsmann, þjálfari þýska landsliðsins, segir það ekki beint tilvalið að bestu leikmenn þýsku deildarinnar fari til Englands í stað þess að vera áfram í heimalandinu.
Florian Wirtz valdi Liverpool í stað Bayern München í sumar, en þýska félagið hafði ekki fjárhagslega getu til að berjast við Liverpool um undirskrift hans.
Skiptin komu nokkuð á óvænt enda algengt að þýskir leikmenn vilji heldur spila með stærsta liðinu í heimalandinu en að leita til Englands.
Nick Woltemade, sem er einn mest spennandi framherji Þjóðverja, fór þá til Newcastle United. Bayern missti einnig af honum og spilaði fjárhagurinn aftur inn í. Newcastle var tilbúið að borga uppsett verð á meðan Bayern gat aðeins greitt 55 milljónir evra.
„Ég er ánægður þegar þeir spila marga leiki og fá fullt af mínútum. Það er það mikilvægasta fyrir mér, en það er auðvitað ekki tilvalið fyrir þýsku deildina að bestu Þjóðverjarnir séu að fara til Englands. En þannig er þetta og á þessum tímapunkti virkar þetta bara fremur eðlilegt,“ sagði Nagelsmann.
Þjálfarinn talaði einnig um í viðtali að hann hafi rætt við Woltemade um framtíðina og virðist það samtal hafa haft sín áhrif, en hann benti honum á að það yrði erfitt að velja hann í hópinn ef hann fengi fáar mínútur. Woltemade hefði orðið annar framherji á eftir Harry Kane á meðan hann yrði byrjunarliðsmaður hjá Newcastle. Það vó þungt í ákvörðun framherjans sem kaus að fara til Englands.
Athugasemdir