Fernandes gæti farið frá Man Utd á næsta ári - Stórliðin berjast um Guehi - Fer Andrey Santos frá Chelsea?
   sun 07. september 2025 13:35
Brynjar Ingi Erluson
Framtíð Konate enn í óvissu - „Mbappe hringir í mig á tveggja tíma fresti“
Ibrahima Konate gæti farið frítt á næsta ári
Ibrahima Konate gæti farið frítt á næsta ári
Mynd: EPA
Framtíð franska miðvarðarins Ibrahima Konate er enn í lausu lofti og verða sögusagnir um að hann gæti farið frítt frá Liverpool til Real Madrid á næsta ári háværari með hverjum deginum sem líður.

Frakkinn hefur verið í samningaviðræðum við Liverpool um nýjan samning í dágóðan tíma en ekkert samkomulag hefur náðst.

Varnarmaðurinn var á afturfótunum í fyrstu tveimur umferðum ensku úrvalsdeildarinnar og margir stuðningsmenn sem kölluðu eftir því að fá Marc Guehi frá Crystal Palace sem fyrst enda virtist hugur Konate kominn til Madrídar.

Real Madrid hefur ekki farið leynt með það að félagið vilji sækja miðvörð næsta sumar. Konate er sagður á óskalista félagsins ásamt William Saliba, leikmanni Arsenal, en Konate er talinn betri kostur þar sem hann verður samningslaus á næsta ári.

Konate, sem er 26 ára gamall, var í viðtali við TF1 á dögunum og þar var hann spurður út í það hvort Kylian Mbappe, leikmaður Real Madrid og liðsfélagi Konate í franska landsliðinu, væri að pressa á hann að koma til Spánar og gat hann ekki neitað því.

„Hann hringir í mig á tveggja tíma fresti til að ræða það,“ sagði Konate og hló.

Ef hann ákveður að fara til Real Madrid á næsta ári verður hann annar lykilmaður Liverpool sem lætur samninginn renna út til að ganga í ræðir spænska stórveldisins á eftir Trent Alexander-Arnold.

Liverpool náði að vísu að fá 10 milljónir punda fyrir Trent rétt fyrir samningslok þar sem Madrídingar vildu nota hann á HM félagsliða, en stuðningsmenn munu þó seint fyrirgefa honum fyrir að sitja út samninginn.
Athugasemdir