
Gríðarleg öryggisgæsla er í kringum Evrópumótið í fótbolta, aðallega vegna hryðjuverkaógnar í Frakklandi. Víðir Reynisson er sérstakur öryggisfulltrúi Íslands á EM.
„Menn taka þessu mjög alvarlega, það er farið vel yfir hlutina og leitað í töskum og öðru. Fólk þarf að taka með sér góða skapið og taka sér góðan tíma þegar farið er á vellina," segir Víðir.
„Fólk þarf að sýna þolinmæði og hafa bara gaman að þessu. Það er aðalmálið."
„Mér skilst að í kringum 90 þúsund manns komi að öryggismálum á mótinu. Umfangið er töluvert. Það er margt nýtt í þessu fyrir okkur en okkur líður mjög vel og erum sáttir með það umhverfi sem okkur er skapað," segir Víðir sem hefur verið í kringum landsliðshópinn.
Íslenskir lögreglumenn munu einnig starfa á mótinu og vera í kringum íslensku stuðningsmennina. Viðtalið við Víði má sjá í heild sinni í sjónvarpinu hér að ofan.
Athugasemdir