
„Mér líður virkilega vel. Það fór um mann þarna þegar þeir skoruðu, þeir eru með mikið baráttulið og erfitt að mæta þeim. Þeir voru að sinna basic vinnunni í gegnum allan leikinn og það var erfitt að brjóta þá." sagði Ágúst Þór Gylfason þjálfari Leiknir R eftir 3-1 sigurinn á Völsung á Domusnovavellinum í Breiðholti í dag.
Lestu um leikinn: Leiknir R. 3 - 1 Völsungur
„Þeir sköpuðu sér nokkur góð færi og að fá markið í andlitið var erfitt en við snúum þessu við með þremur mörkum hérna á heimavelli sem er aðaleinkenni Leiknis liðsins, það kemur enginn hingað og tekur neitt frá okkur og það var kærkomið að snúa þessu við og sýna stuðningsmönnum okkar að við erum á réttu róli."
Ágúst Gylfason tók við Leikni á dögunum þegar Ólafur Hrannar lét af störfum. Hvað hefur breyst?
„Ég kem inn í þetta og fæ hluta af teyminu sem er búið að vinna með liðinu og Óli Hrannar er búin að gera vel með Leiknisliðið, bæði í fyrra þegar hann tók við á erfiðum tímum og snéri trendinu við og hélt áfram núna og því miður hefur það ekki gengið sem skyldi í byrjun móts og ég verð líka bara að þakka honum fyrir og þjálfateyminu fyrir að hjálpa mér að snúa þessu við ásamt leikmönnum."