fim 09. júlí 2020 19:52
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Pepsi Max-deildin: Fylkir skoraði fjögur - Aron Dagur gerði dýrkeypt mistök
Djair skoraði og átti skotið í þriðja markinu. Hann var valinn maður leiksins af vallarþuli Würth-vallarins.
Djair skoraði og átti skotið í þriðja markinu. Hann var valinn maður leiksins af vallarþuli Würth-vallarins.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fylkir 4 - 1 KA
1-0 Djair Terraii Carl Parfitt-Williams ('31 )
1-1 Guðmundur Steinn Hafsteinsson ('67 )
2-1 Daði Ólafsson ('73 )
3-1 Valdimar Þór Ingimundarson ('75 )
4-1 Orri Sveinn Stefánsson ('86 )
Lestu nánar um leikinn.

Fylkir sigraði KA í eina leik dagsins í Pepsi Max-deildinni. Fylkir leiddi með einu marki í hálfleik en markið skoraði Djair Parfitt-Williams eftir sendingu Valdimars Ingimundarsonar.

Guðmundur Steinn Hafsteinsson jafnaði metin um miðjan seinni hálfleikinn eftir sendingu frá Hallgrími Mar Steingrímssyni. Skömmu síðar skoraði Fylkir tvö mörk og komu þau á svokölluðu silfurfati frá markverði KA, Aroni Degi Birnusyni. Fyrra markið skoraði Daði Ólafsson.

„MAAAAARK! ÞVÍLÍK MISTÖK HJÁ ARON DEGI... Valdi sendir hornspyrnuna út á Daða sem leggur boltann fyrir sig á vinstri fótinn og neglir honum af 30 metrunum frekar beint á Aron sem er linur í úlnliðunum og ver boltann inn. Fylkismenn komnir aftur yfir," skrifaði Baldvin Borgarsson í beinni textalýsingu frá leiknum.

Valdimar Þór bætti svo við þriðja markinu tveimur mínútum síðar þegar Aron Dagur varði skot frá Djair út í teiginn og þar var Valdimar klár í frákastið, Aron átti aftur að gera betur.

Fjórða mark Fylkis skoraði svo Orri Sveinn Stefánsson á 86. mínútu eftir mikinn atgang inn á teig KA. Þriðji sigur Fylkis í röð í deildinni staðreynd. KA er áfram með tvö stig og Fylkir níu.
Athugasemdir
banner
banner
banner