Everton ætlar að fá Chukwueze - Man Utd reynir að sannfæra Davies - Arsenal gæti fengið Vlahovic á góðu verði
banner
   þri 09. júlí 2024 22:19
Brynjar Ingi Erluson
Griezmann: Þeir voru betri en við
Mynd: EPA
Antoine Griezmann, leikmaður franska landsliðsins, segir leikmenn reiða og sára eftir 2-1 tapið gegn Spánverjum í undanúrslitum Evrópumótsins í kvöld.

Franska liðið hafði gert vel í að drepa leiki í mótinu. Varnarleikurinn var til fyrirmyndar en sóknarleikurinn ekki alveg í takt við það.

Liðið skoraði sitt fyrsta mark úr opnum leik gegn Spánverjum, en fengu tvö mörk í andlitið stuttu síðar.

„Við erum allir reiðir og sorgmæddir. Þetta er þungt högg en mér fannst þeir samt betri en við. Mesta eftirsjáin er kannski tengd fyrstu tuttugu mínútunum þar sem við vorum betri aðilinn en svo jafna þeir með langskoti. Við vissum að þeir myndu reyna mörg skot fyrur utan teiginn og vissum að Yamal væri örvfættur. Þeir skora síðan annað mark nokkrum mínútum seinna og það særði okkur,“ sagði Griezmann við L'Equipe.

Griezmann var nokkuð sáttur við frammistöðu sína á mótinu, alla vega í seinni leikjunum. Hann kom inn af bekknum í kvöld.

„Ég byrjaði mótið illa. Mér leið betur þegar leið á mótið en endaði síðan á bekknum. Ég reyndi að gefa allt mitt, í mismunandi stöðum því við þurftum að aðlagast. Varnarlega vorum við mjög góðir í gegnum mótið en sóknarlega klúðruðum við of mörgum færum,“ sagði Griezmann í lokin.
Athugasemdir
banner
banner