Maguire og Fernandes áfram á Old Trafford - Silva til í að fara - Endrick í úrvalseildina - Semenyo til Man Utd?
banner
   fim 09. október 2025 21:30
Ívan Guðjón Baldursson
Militao hugsaði um að leggja skóna á hilluna
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Brasilíski miðvörðurinn Éder Militao er 27 ára gamall en hugsaði um að hætta í fótbolta eftir að hafa slitið krossbönd með stuttu millibili.

Militao sleit fyrst krossband í vinstra hné í ágúst 2023 og var frá keppni í um 8 mánuði. Hann snéri aftur til leiks í apríl 2024 og festi sig aftur í sessi sem lykilmaður í vörn Real Madrid, en sleit svo krossbandið á hægra hné í nóvember. Í þetta skiptið voru meiðslin verri þar sem hann reif báða liðþófana í hnénu með slitunum.

Militao var frá keppni í 9 mánuði og mætti aftur til leiks á HM félagsliða í júlí.

„Eftir önnur hnémeiðslin var margt sem fór í gegnum hugann á mér. Ég hugsaði um að leggja skóna á hilluna," sagði Militao á fréttamannafundi með brasilíska landsliðinu sem leikur æfingaleik í Suður-Kóreu. „Ég komst sem betur fer í gegnum þetta með hjálp frá eiginkonunni, dóttur minni og liðsfélögunum.

„Síðustu tvö ár hafa verið mjög erfið, þá er mikilvægt að eiga góða fjölskyldu að og fá hjálp frá guði. Allt í einu situr maður bjargarlaus heima hjá sér, maður þarf að reiða sig á að einhver annar geri hlutina fyrir mann. Guði sé lof þá jafnaði ég mig af meiðslunum og er aftur að spila á hæsta gæðastigi. Það er hvorki auðvelt né sjálfgefið að það gerist."

Carlo Ancelotti þjálfar brasilíska landsliðið og þekkir Militao hann mjög vel eftir tíma þeirra saman hjá Real Madrid.

„Við tölum mikið saman og eigum í góðu sambandi, hann er frábær manneskja og hann hefur gert mér grein fyrir því að þetta sé allt undir mér komið. Ef ég spila vel fyrir félagið mitt þá spila ég líka fyrir landsliðið. Hann er stórkostlegur þjálfari og við erum heppnir að hafa hann."
Athugasemdir
banner
banner