Englendingurinn Cole Palmer heldur áfram að vera með Chelsea á herðum sér en hann sá til þess að liðið ynni 4-3 sigur á Tottenham í ensku úrvalsdeildinni í gær og er liðið aðeins fjórum stigum frá toppnum eftir leiki helgarinnar.
Chelsea keypti Palmer frá Manchester City á síðasta ári fyrir aðeins 42,5 milljónir punda sem hefur nú sannreynst sem algert tombóluverð.
Hann er einn af bestu mönnum deildarinnar og naga City-menn sig eflaust í handarbökin yfir því að hafa leyft honum að fara frá félaginu.
„Fólk fyllist af ótta þegar hann er með boltann. Þegar þú horfir á Chelsea yfir árin og þessa hæfileikaríku leikmenn eins og Gianfranco Zola og Eden Hazard, þá er líklega hægt að segja að Palmer hafi gert meira en Zola á átján mánuðum hans hjá félaginu.“
„Hann er á leið í sögubækurnar sem einn stærsti leikmaður Chelsea ef hann heldur áfram á sömu braut. Þetta er mjög sérstakur leikmaður og ekki bara í ensku úrvalsdeildinni, heldur í Evrópu og heiminum,“ sagði Jamie Carragher á Sky.
Palmer hefur komið að fimmtíu mörkum í 48 deildarleikjum sínum, en aðeins Erling Braut Haaland, Andy Cole og Mohamed Salah náðu þessum áfanga í færri leikjum en hann.
Jamie Redknapp sagði á Sky að þessi kaup hafa breytt öllu fyrir Chelsea.
„Það er ógnvekjandi að sjá hvað hann gerir við boltann. Það er eins og hann sé bara að spila með vinum sínum og virkar allt svo áreynslulaust fyrir hann,“ sagði Redknapp.
Á þessu tímabili hefur Palmer gert ellefu mörk og lagt upp átta en aðeins Mohamed Salah hefur komið að fleiri mörkum í deildinni.
Athugasemdir