Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   þri 10. janúar 2023 13:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Viðtal
Guðmann ekki búinn að taka ákvörðun - „Hringi kannski í gamla félaga"
Guðmann Þórisson.
Guðmann Þórisson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kórdrengir höfnuðu í fimmta sæti Lengjudeildarinnar á síðustu leiktíð.
Kórdrengir höfnuðu í fimmta sæti Lengjudeildarinnar á síðustu leiktíð.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Varnarmaðurinn Guðmann Þórisson er samningslaus þessa stundina eftir að hafa spilað með Kórdrengjum síðasta sumar.

Guðmann er reynslumikill og öflugur miðvörður sem hefur spilað með Breiðabliki, FH, KA og Kórdrengjum hér á landi. Þá hefur hann leikið með Nybergsund í Noregi og Mjällby í Svíþjóð.

„Ég er að skoða það," segir Guðmann, sem er 35 ára gamall, í samtali við Fótbolta.net aðspurður að því hvort hann ætli að halda áfram að spila fótbolta.

„Ég er ekki búinn að ákveða hvort ég hætti eða haldi áfram. Ef eitthvað skemmtilegt kemur upp, þá skoða ég það."

Hefur hann verið að æfa með einhverju félagi? „Ég hef bara verið að æfa sjálfur, ekki með neinu liði. Ég hringi kannski í einhverja gamla félaga og fer aðeins að æfa fótbolta ef ske kynni að maður myndi halda áfram."

Held að það sé bara allt í vinnslu
Staðan er óljós hjá Kórdrengjum þessa stundina, hvort þeir verði með á Íslandsmótinu næsta sumar.

„Ég held að það sé bara allt í vinnslu, vonandi kemur það í ljós fljótlega," segir Guðmann um málefni Kórdrengja en var hann ánægður með það hvernig gekk hjá félaginu á síðustu leiktíð?

„Þetta hefði getað gengið betur. Við vorum óheppnir með meiðsli og það eitt og annað sem hefði mátt fara betur. Þetta var allt í lagi tímabil. Fyrir Kórdrengi að lenda í fjórða sæti og fimmta, það er mjög góður árangur miðað við hvað félagið er lítið. Ég held að fólk átti sig ekki á því hversu mikil barátta og hark þetta er."

„Stefnan var sett á að fara upp en ég held að Kórdrengir geti verið sáttir með árangurinn síðustu ár."

Hann segist vera opinn fyrir því að leika áfram með Kórdrengjum ef félagið nær að leysa sín mál. „Já, ef allt gengur upp hjá þeim þá er ég tilbúinn að skoða það. En eins og ég segi þá þarf þetta að vera áhugavert og eitthvað sem maður hefur gaman að. Þá er ég tilbúinn."
Athugasemdir
banner
banner
banner