Juventus segir nei við Rashford - Stærstu félögin á Englandi vilja Musiala - Olmo gæti farið frítt frá Barcelona
   mán 10. febrúar 2020 09:36
Magnús Már Einarsson
Eiður Smári: Hélt að ég myndi fara til Liverpool
Jimmy Floyd Hasselbaink og Eiður Smári Guðjohnsen.
Jimmy Floyd Hasselbaink og Eiður Smári Guðjohnsen.
Mynd: Getty Images
Eiður Smári Guðjohnsen og Jimmy Floyd Hasselbaink, fyrrum félagar í framlínu Chelsea, eru í skemmtilegu viðtali hjá Sky Sports í dag. Þar talar Eiður Smári meðal annars um það að Liverpool hafi reynt við hann áður en hann samdi við Chelsea árið 2000 eftir dvöl hjá Bolton.

„Ég hélt fyrst að ég myndi fara til Liverpool. Gerard Houllier sýndi mikinn áhuga og hafði mætt á marga leiki hjá okkur. Það var áður en Chelsea kom inn í myndina," sagði Eiður.

Eiður hreifst strax af hugmyndum Gianluca Vialli, stjóra Chelsea, enda verið aðdáandi hans lengi.

„Hann vissi ekki að hann hafði spilað í úrslitum í Evrópukeppni á móti pabba mínum. Vialli spilaði með Sampdoria og faðir minn (Arnór) spilaði með Anderlecht. Þeir skiptust á treyjum því ég bað pabba minn um treyju Vialli. Það þurfti því ekki mikið að sannfæra mig," sagði Eiður.

Eiður og Hasselbaink skoruðu 52 mörk saman á öðru tímabili sínu hjá Chelsea. „Aðalatriðið er að við vildum sjá hvorn annan ganga vel. Ef ég skoraði var ég ánægður fyrir hans hönd og og öfugt. Ég tók mitt hlaup og hann fann mig," sagði Hasselbaink um samvinnuna við Eið.

Símtalið frá Mourinho
Eiður rifjaði einnig upp í viðtalinu þegar Jose Mourinho hringdi í hann sumarið 2004 þegar hann tók við Chelsea.

„Ég var með vini mínum að fá mér bjór eins og maður gerir í fríi," sagði Eiður um símtalið frá Mourinho.

„Hann sagði 'Þetta er nýi stjórinn. Ekki hafa neinar áhyggjur af næsta tímabili. Ég segi þér það hér og nú að þú verður hjá Chelsea á næsta ári. Þú spilar. Ég þarf þig í þínu besta standi."

„Ég tók bjórinn og sagði: 'Ég vil hann ekki lengur.' Þetta er það sem ég þurfti að heyra frá stjóranum. Ég fékk þetta aldrei frá (Claudio) Ranieri. Þetta var í fyrsta skipti sem einhver hafði virkilega trú á mér."


Smelltu hér til að lesa viðtalið hjá Sky í heild
Athugasemdir
banner
banner
banner