Man City gerir tilboð í Olmo - Barcelona reynir líka að fá spænska landsliðsmanninn - Wan-Bissaka vill ekki fara til West Ham
   lau 10. febrúar 2024 22:31
Ívan Guðjón Baldursson
Óttar Magnús skoraði bæði mörkin - Eupen steinlá í Brugge
Mynd: Venezia
Óttar Magnús Karlsson er í miklu stuði þessa dagana og skoraði hann bæði mörkin í 0-2 sigri Vis Pesaro gegn Fermana í ítölsku C-deildinni í kvöld.

Óttar skoraði mörkin í fyrri hálfleik og er Vis Pesaro nú mitt á milli þess að vera í fallsæti og umspilssæti, með 28 stig eftir 25 umferðir.

Óttar er orðinn lykilmaður í liði Vis Pesaro, á láni frá Venezia sem er í toppbaráttunni í Serie B, og er búinn að skora fjögur mörk í síðustu þremur leikjum.

Guðlaugur Victor Pálsson var þá í byrjunarliði Eupen sem steinlá á útivelli gegn Club Brugge í efstu deild belgíska boltans. Alfreð Finnbogason fékk að spreyta sig á lokakaflanum en tókst ekki að minnka muninn fyrir gestina.

Þetta var þriðja tapið í röð hjá Eupen og er liðið í næstneðsta sæti, með 21 stig eftir 25 umferðir.

Að lokum var Alfons Sampsted ónotaður varamaður í flottum sigri FC Twente á útivelli gegn Excelsior. Twente er í þriðja sæti, aðeins tveimur stigum eftir Feyenoord í öðru sæti. Annað sætið gefur beinan þátttökurétt í riðlakeppni Meistaradeildarinnar, en þriðja sætið veitir þátttökurétt í forkeppninni.

Samúel Kári Friðjónsson var ekki í hóp er Atromitos tapaði í gríska boltanum.

Fermana 0 - 2 Vis Pesaro
0-1 Óttar Magnús Karlsson ('15)
0-2 Óttar Magnús Karlsson ('45+3)
Rautt spjald: A. Iervolino, Vis Pesaro ('67)
Rautt spjald: F. Pistolesi, Fermana ('92)

Club Brugge 4 - 0 Eupen

Excelsior 0 - 3 Twente

Panetolikos 1 - 0 Atromitos


Athugasemdir
banner