banner
   fös 10. júlí 2020 09:30
Innkastið
Hefðu allir fyrirgefið Víkingi að fara úr sinni hugmyndafræði
Úr leik Víkings og Vals.
Úr leik Víkings og Vals.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Þetta voru mörk á silfurfati og þetta var eins og börn á móti fullorðnum," sagði Ingólfur Sigurðsson í Innkastinu um 5-1 sigur Vals á Víkingi R.

Miðverðirnir Kári Árnason, Sölvi Geir Ottesen og Halldór Smári Sigurðsson voru allir í leikbanni. Tómas Guðmundsson kom inn í vörnina ásamt miðjumanninum Júlíusi Magnússyni.

Víkingar komust yfir snemma leiks en Valgeir Lunddal Friðriksson var fljótur að jafna. Patrick Pedersen kom Val síðan yfir á 12. mínútu en það kom eftir vandræðagang í uppspili Víkings. Júlíus tók útspark og gaf á Tómas sem sendi beint á Patrick Pedersen.

„Víkingar eru með sína hugmyndafræði og vilja spila ákveðinn fótbolta. Þegar þú ert kominn í 1-0 gegn Val á heiamvelli og staðan er eins og hún er með leikmannahópinn, af hverju er Júlíus Magnússon þá að spila á Tómas, sem hefur tvo kosti, senda til baka eða negla fram. Af hverju ýta þeir ekki varnarlínunni upp? Þeir eru með sína hugmyndafræði en þeir verða að ná í úrslit," sagði Ingólfur Sigurðsson í Innkastinu.

„Það hefðu allir fyrirgefið þeim það að fara svolítið út úr munstrinu sínu í þessum leik," sagði Elvar Geir Magnússon.

„Þetta var ekki öfundsverð staða sem Tómas Guðmundsson var settur í þarna. Hann fær ekki tíma til að taka skrekkinn úr sér. Þeir eru búnir að fá tvö mörk á sig eftir tólf mínútur," sagði Gunnar Birgisson.

Víkingur mætir HK í næstu umferð á sunnudag.

Hér að neðan má hlusta á Innkastið.
Innkastið - KA í brekku og öftustu menn gefa mörk á silfurfati
Athugasemdir
banner
banner
banner