Real Madrid vill Rodri, Trent og Saliba - Karim Adeyemi orðaður við Man Utd - Newcastle vill Gomes
   lau 10. ágúst 2024 16:22
Ívan Guðjón Baldursson
Lengjudeildin: Dalvíkingar unnu botnslaginn á Seltjarnarnesi
Lengjudeildin
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Grótta 2 - 3 Dalvík/Reynir
0-1 Freyr Jónsson ('20)
1-1 Gabríel Hrannar Eyjólfsson ('30)
1-2 Hassan Jalloh ('36)
1-3 Áki Sölvason ('49)
2-3 Pétur Theódór Árnason ('59)

Lestu um leikinn: Grótta 2 -  3 Dalvík/Reynir

Grótta tók á móti Dalvík/Reyni í fyrri leik dagsins af tveimur í Lengjudeild karla. Þar áttust liðin við í botnslag þar sem gestirnir frá Dalvík tóku forystuna á 20. mínútu.

Freyr Jónsson skoraði þá eftir frábæran undirbúning frá Borja López sem gaf glæsilega sendingu yfir vörn Gróttu.

Heimamenn svöruðu fyrir sig af krafti og voru búnir að jafna tíu mínútum síðar, skömmu eftir að hafa verið ósáttir með að fá mark dæmt af. Gabríel Hrannar Eyjólfsson gerði löglega jöfnunarmarkið eftir góða sendingu frá Kristófer Orra Péturssyni.

Gleði Seltirninga var þó ekki langlíf því Hassan Jalloh kom Dalvíkingum yfir á ný skömmu síðar og var staðan 1-2 í leikhlé.

Hassan skoraði eftir flott einstaklingsframtak þar sem hann vann boltann á miðjunni og skoraði sjálfur með skoti utan vítateigs.

Bæði lið fengu færi til að bæta marki við leikinn en það tókst ekki fyrr en í upphafi síðari hálfleiks, þegar Áki Sölvason tvöfaldaði forystu gestanna.

Áki skoraði af stuttu færi eftir góða sókn Dalvíkur þar sem Gunnlaugur Rafn Ingvarsson gaf góða, lága fyrirgjöf frá endalínunni.

Pétur Theódór Árnason minnkaði muninn aftur niður í eitt mark fyrir Gróttu á 59. mínútu og leikurinn var því galopinn síðasta hálftímann. Pétur skoraði með skalla eftir fyrirgjöf frá Gabríel Hrannari.

Seltirningar báðu um mikið af vítaspyrnum í síðari hálfleik en fengu ekki og tókst heldur ekki að skora löglegt jöfnunarmark. Lokatölur urðu því 2-3 fyrir Dalvík og er þetta risastór sigur fyrir botnlið Lengjudeildarinnar.

Þetta var fyrsti sigur Dalvíkur síðan í fyrstu umferð sumarsins og er liðið áfram á botni deildarinnar.

Dalvík hefur tekist að jafna Gróttu á stigum þar, þar sem bæði lið eiga 13 stig eftir 16 umferðir - þremur stigum frá öruggu sæti í deild.
Athugasemdir
banner
banner