Man Utd til í að opna veskið fyrir Yildiz - Everton gæti reynt við Phillips - Liverpool hefur áhuga á Wharton
banner
   fös 10. október 2025 15:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Láki: Hugarfarið hans hefur komið mér rosalega á óvart
Láki og Sverrir Páll. Sverrir hefur skorað sex mörk í sumar og verið í stóru hlutverki í liði ÍBV.
Láki og Sverrir Páll. Sverrir hefur skorað sex mörk í sumar og verið í stóru hlutverki í liði ÍBV.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sverrir skoraði eitt af mörkum tímabilsins í útisigri á Akranesi.
Sverrir skoraði eitt af mörkum tímabilsins í útisigri á Akranesi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hermann skoraði þrennu í útisigri gegn Vestra og er kominn með sex mörk í sumar. 'Hann er núna búinn að koma sér á kortið sem leikmaður'
Hermann skoraði þrennu í útisigri gegn Vestra og er kominn með sex mörk í sumar. 'Hann er núna búinn að koma sér á kortið sem leikmaður'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þegar Omar Sowe, Oliver Heiðarsson, Bjarki Björn Gunnarsson og Arnar Breki Gunnarsson meiddust allir með stuttu millibili nokkuð snemma á tímabilinu voru góð ráð dýr fyrir ÍBV. Glugginn var lokaður og hópurinn ekki stór.

Það var komið að Sverri Páli Hjaltested og Hermanni Þór Ragnarssyni að taka að sér öðruvísi og stærra hlutverk í liðinu. Sverrir Páll kom mjög sterkur inn og Hermann hefur verið mjög öflugur seinni hlutann. Fótbolti.net ræddi við Þorlák Árnason, þjálfara ÍBV, í dag og var hann spurður út í þennan erfiða kafla á tímabilinu og leikmennina sem stigu upp.

„Hversu öflugir leikmenn þeir eru kom mér í raun ekki á óvart. Það sem kom mér á óvart með Sverri var hvernig hann höndlaði stöðu sína. Það var alveg ljóst framan af að við tókum Omar Sowe fram yfir hann. En þegar Sverrir var ekki að spila þá var hann daginn eftir leik sá sem lagði sig mest fram á æfingum. Það kom mér rosalega á óvart, hugarfarið. Það var fyrst og fremst hugarfarið sem hjálpaði honum held ég, þegar maður fer að spila þá þarf maður yfirleitt smá tíma til að koma sér í gang en hann var búinn að leggja ótrúlega mikið á sig á æfingum."

„Hermann er með gríðarlega mikla hæfileika og það má segja að hann hafi sprungið út seinni hlutann. Hann hefur átt góða kafla með ÍBV og allir vita hvað býr í honum, en hann er núna búinn að koma sér á kortið sem leikmaður."

„Arnar Breki kemur svo inn þegar líður á, hann lendir í meiðslum í fyrra og við vissum að það myndi taka hann tíma til að koma sér í gírinn. Hann er búinn að vera flottur seinni hlutann."

„Þessir leikmenn sem duttu út voru algjörir lykilmenn í þessum rokk og ról leikstíl sem við vorum með. Það tók svolítið sálina úr liðinu en svo tóku aðrir við og árangur liðsins núna seinni partinn er ekki síðri en hann var fyrri hlutann."


Var lauslega orðaður í burtu
Það heyrðist af því að Sverrir gæti farið frá ÍBV rétt fyrir gluggalok í vor. Láki var spurður hvort hann hefði fundið fyrir því að Sverrir væri að íhuga sína stöðu.

„Já, það kom alveg aðeins upp. Það þarf að vera áhugi á leikmönnum frá öðrum liðum svo leikmenn hreyfi sig. Það voru alveg lið sem voru að fylgjast með framgangi Sverris. En það var aldrei þannig að Sverrir vildi fara, það kom aldrei til greina af okkar hálfu að reyna koma honum í burtu. Það var ekki óeðlilegt að lið vildu fá hann fyrst hann var ekki að spila, en eins og þetta var þá tók svolítinn tíma fyrir Omar Sowe inn í leikstílinn, þegar það tikkaði þá setti það Sverri aðeins aftar í röðina. Svo missum við Omar út og Sverrir var ekki mjög lengi að koma sér í það að eigna sér stöðina. Það var aldrei þannig að ÍBV vildi að Sverrir færi eða þannig að hann vildi fara. En það voru hugleiðingar á einhverju millistigi," segir Láki.
Athugasemdir
banner