Man Utd til í að opna veskið fyrir Yildiz - Everton gæti reynt við Phillips - Liverpool hefur áhuga á Wharton
banner
   fös 10. október 2025 07:00
Ívan Guðjón Baldursson
Nani: Ég var hræddur við Sir Alex
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Portúgalinn Luis Nani lagði skóna á hilluna í fyrra eftir að hafa komið víða við á ferli sínum sem atvinnumaður í fótbolta. Hann stoppaði meðal annars hjá Manchester United í átta ár og lék þar lengst af undir stjórn Sir Alex Ferguson.

Samlandarnir Nani og Cristiano Ronaldo voru nánir vinir í liði Rauðu djöflanna á þeim tíma.

Nani var í viðtali á dögunum og ræddi um bestu þjálfara sem hann hefur haft á ferlinum. Hann ræddi um Paulo Bento og José Peseira frá tíma sínum hjá Sporting og Alex Ferguson og Carlos Queiroz hjá Man Utd.

„Það var allt annar heimur þegar ég flutti til Englands og byrjaði að starfa með Carlos Queiroz og Alex Ferguson. Fólk talaði bara ensku og þegar Ferguson tjáði sig þá skildi ég ekki eitt einasta orð. Ég fylgdist bara með svipbrigðunum hans til að reyna að átta mig á því hvað hann væri að segja og ef ég á að vera heiðarlegur þá var ég hræddur við hann," sagði Nani.

„Ég spurði Cristiano (Ronaldo) hvað þjálfarinn væri að segja og hann svaraði bara að ég vildi ekki vita það. Þetta gerði mig stressaðan, ég vildi vita hvað hann sagði.

„Þegar ég byrjaði að læra ensku og fór aðeins að skilja Ferguson þá var hann oft erfiður við mig. Ég var líka erfiður persónuleiki, ég bakkaði ekki frá neinu. Ef einhver liðsfélagi sagði eitthvað við mig þá gat ég ekki þagað, ég þurfti alltaf að svara. En ég var hræddur við Ferguson.

„Hann sagði stundum við mig að ef ég myndi haga mér aftur á ákveðinn hátt þá fengi ég ekki að spila aftur fyrir aðalliðið eða varaliðið. Ég yrði sendur aftur til Portúgal með næstu flugvél. Þetta gerði mig taugaóstyrkan, ég hugsaði um ummælin hans dögum saman en svo náði ég aftur að slaka á og hélt áfram að grínast með Cristiano og Anderson."


Nani kom að 107 mörkum í 230 leikjum á ferli sínum hjá Man Utd.

„Það var seinna meir sem ég skildi af hverju Ferguson var svona oft erfiður við mig. Við fórum að spjalla meira saman maður á mann og ég áttaði mig á því að hann bar rosalega miklar væntingar til mín. Þegar ég fattaði þetta þá byrjaði ég að spila minn besta fótbolta, þetta gaf mér svo mikið sjálfstraust.

„Ferguson kom meira að segja að heimsækja mig til Portúgal árum síðar. Við sátum saman við ána og hann sagði mér sögur, svo heimsótti ég líka skrifstofuna hans í Manchester. Það yljar mér um hjartarætur að líta til baka og hugsa til þeirra þjálfara sem virkilega mótuðu ferilinn minn."

Athugasemdir