Thomas Tuchel landsliðsþjálfari Englendinga var ósáttur með stuðninginn sem hans menn fengu frá áhorfendum á Wembley í 3-0 sigri gegn Wales í æfingalandsleik í gærkvöldi.
England komst í þriggja marka forystu á fyrstu 20 mínútum leiksins og sigldi sigrinum þægilega í höfn.
„Leikvangurinn var hljóðlátur, við fengum aldrei neina orku til baka frá áhorfendum. Strákarnir áttu skilið meiri hvatningu miðað við frammistöðuna," sagði Tuchel við ITV Sport að leikslokum.
„Það var erfitt fyrir okkur að halda þessu tempói áfram í seinni hálfleik en við áttum frábæran leik og verðskulduðum sigurinn.
„Ég bjóst við meiru frá stuðningsmönnum, hvað meira vilja þeir frá okkur? Við skoruðum þrjú mörk á 20 mínútum, við sóttum án afláts og gáfum þeim ekki tækifæri til þess að draga andann.
„Í góðan hálftíma heyrðist bara í stuðningsmönnum Wales. Það er smá sorglegt útaf því að mér fannst strákarnir verðskulda meiri stuðning."
Tuchel hefur farið vel af stað með enska landsliðið og vann síðasta keppnisleik á útivelli gegn sterku liði Serbíu með fimm marka mun.
„Ég elska enska boltann og enska stuðningsmenn en í dag fannst mér stemningin á leikvanginum ekki vera nærrum því jafn góð og frammistaða leikmanna. Þetta var allt annað í Serbíu, þar heyrðist allan tímann í stuðningsmönnunum okkar.
„Í dag vorum við 3-0 yfir eftir 20 mínútur, unnum hvern boltann á fætur öðrum og ég skildi ekkert í því hvers vegna þakið var ekki löngu fokið af leikvanginum. Þetta er bara svona. Við höldum áfram að gera okkar besta og vonandi hvetur það stuðningsmenn til dáða."
Athugasemdir