Knattspyrnudeild Vals hefur ráðið Hilmar McShane sem styrktar- og frammistöðuþjálfara meistarflokkskvenna. Þetta kemur fram í tilkynningu félagsins.
Hilmar býr yfir mikilli þekkingu og er með meistaragráðu í íþróttavísindum með áherslu á þjálfun.
Síðustu tvö árin hefur hann starfað sem styrktarþjálfari hjá meistaraflokki karla og kvenna hjá Gróttu.
Hann er nú tekinn við stöðu frammistöðu- og styrktarþjálfara hjá meistaraflokki kvenna hjá Val og mun aðstoða við þjálfun meistaraflokks karla og yngri flokka félagsins.
Hilmar á fjölda leikja að baki með Gróttu, Grindavík, Njarðvík og Haukum. Hann spilaði meðal annars fyrir Chris Brazell hjá Gróttu, en Brazell var á dögunum ráðinn aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla hjá Val.
„Við erum gríðarlega ánægð með að fá Hilmar til Vals. Menntun hans, ásamt víðtækri reynslu í styrktar- og frammistöðuþjálfun og ferill hans sem leikmaður er eitthvað sem mun nýtast okkur vel. Hann verður mikill styrkur, sérstaklega fyrir meistaraflokk kvenna, en mun jafnframt styðja Kirian í starfi með karlaliðið okkar og yngri flokka,“ sagði Gareth Owen, tæknilegur yfirmaður knattspyrnudeildar Vals.
Athugasemdir


