Benoný Breki Andrésson var á skotskónum þegar Stockport komst áfram í neðrideildabikarnum á Englandi. Liðið heimsótti Crewe og heimamenn komust yfir snemma leiks en Benoný jafnaði metin eftir rúmlega hálftíma leik.
Benoný var tekinn af velli á 70. mínútu. Saðan var jöfn eftir venjulegan leiktíma en Stockport vann 4-1 í vítaspyrnukeppni og komst því áfram í 16-liða úrslit.
Tómas Bent Magnússon spilaði allan leikinn í grátlegu jafntefli Hearts gegn Kilmarnock í skosku deildinni. Hearts komst yfir í upphafi seinni hálfleiks en jöfnunarmarkið kom á síðustu mínútu venjulegs leiktíma.
Kjartan Már Kjartansson var ónotaður varamaður þegar Aberdeen gerði einnig grátlegt jafntefli. Liðið komst í 3-2 gegn St. Mirren undir lok leiksins en St. Mirren náði að jafna metin í blálokin.
Hearts er án sigurs í síðustu fjórum leikjum og er með 32 stig á toppnum, jafn mörg stig og Celtic sem á leik til góða. Aberdeen er 7. sæti með 18 stig.
Gísli Gottskálk Þórðarson kom inn á 23. mínútu en var tekinn af velli á 68. mínútu þegar Lech Poznan vann Piast Gliwice 2-0 í 16-liða úrslitum pólska bikarsins.
Athugasemdir



