Trafford vill fara frá City - Gallagher og Brown til Man Utd? - Arsenal fær tvíbura - Guendouzi aftur til Englands - Mateta á förum?
banner
   þri 02. desember 2025 23:24
Brynjar Ingi Erluson
Spænski konungsbikarinn: D-deildarliðin stríddu La Liga-liðunum
Raul Garcia skoraði tvö fyrir Osasuna
Raul Garcia skoraði tvö fyrir Osasuna
Mynd: EPA
La Liga-liðin Deportivo Alaves, Getafe, Osasuna og Real Mallorca eru komin áfram í 32-liða úrslit spænska konungsbikarsins.

Osasuna þurfti heldur betur að hafa fyrir hlutunum gegn D-deildarliði Ebro.

Ebro komst yfir í leiknum en Raul Garcia skoraði tvö og sneri taflinu við.

Marc Prat jafnaði fyrir Ebro áður en Moi Gomez og Shiraldo Becker komu Osasuna í tveggja marka forystu. Ebro minnkaði muninn niður í eitt mark með vítaspyrnu í uppbótartíma áður en Victor Munoz gulltryggði Osasuna áfram.

Mallorca vann D-deildarlið Numancia naumlega, 3-2. Mallorca komst í tveggja marka forystu áður en Jony minnkaði muninn fyrir Numancia á 54. mínútu.

Abdon Prats kom Mallorca aftur í tveggja marka forystu en á síðasta stundarfjórðungi leiksins setti Numancia meiri pressu á Mallorca með öðru marki sínu. Lengra komst Numancia ekki sem er úr leik en Mallorca komið áfram í næstu umferð.

Getafe kom sér áfram en var í miklum vandræðum framan af í leik gegn D-deildarliðinu Navalcarnero.

Navalcarnero komst í 2-0 gegn Getafe, en úrvalsdeildarliðið kom til baka í þeim síðari með tveimur mörkum áður en Jorge Montes sendi liðið áfram með marki í framlengingu.

Deportivo Alaves var eina La Liga-liðið sem vann öruggan sigur en liðið sigraði Portugalete 3-0. Carlos Vicente og Toni Martinez skoruðu og þá gerðu heimamenn eitt sjálfsmark.

Frábær frammistaða hjá neðri deildarliðunum en á endanum voru það gæðin sem skinu í gegn og á endanum voru úrslitin allt eftir bókinni.
Athugasemdir